KVMG2FK05 - Frá hugmynd til framleiðslu kvikmyndar

frá hugmynd til framleiðslu kvikmyndar

Einingafjöldi: 5
Þrep: 2
Forkröfur: KVMG2HE05 og KVMG2LÝ05
Í áfanganum vinna nemendur með eigin hugmynd að vandaðri stuttmynd, sem verður lokaverkefni þeirra í kvikmyndagerð. Hugmyndinni er í upphafi skilað sem útdrætti að mynd, sem síðan er unnin áfram í samvinnu og undir handleiðslu ráðgjafa. Samhliða er lögð fram myndstikla til kynningar á verkinu fyrir framleiðendum og fjármögnunaraðilum. Þegar verkinu er lokið á það að vera hæft til þátttöku í samkeppni framleiðenda um gott handrit fyrir stuttmynd/heimildarmynd. Verkið skilast sem fullbúið handrit að stuttmynd ásamt, myndstiklu og nauðsynlegum fylgigögnum. Unnið undir leiðsögn kennara og faglegs rýnihóps.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
  • hvernig hugmynd er færð í búning sögu sem unnin er undir leiðsögn rýnihóps í fullbúið handrit að stuttmynd/heimildarmynd
  • hvernig gera skal tökuáætlun, kostnaðaráætlun og fjármögnunaráætlun fyrir stuttmynd/heimildarmynd
  • hvernig vinna skal fullbúna kynningarstiklu fyrir framleiðendur með það að markmiði að hún fangi athygli og veki áhuga
  • hvaða lykilstarfsfólk þarf að ráða vegna framleiðslu myndarinnar

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
  • nýta þekkingu sína til þess að vinna á faglegan og gagnrýninn hátt með góða hugmynd þannig að úr verði framúrskarandi handrit að stuttmynd/heimildarmynd
  • vinna á hlutlægan og faglegan hátt með ráðgjöfum, leikstjóra og framleiðanda að fullnaðarfrágangi handrits
  • gera lista yfir lykilstarfsfólk við upptökur og framleiðslu á væntanlegri stuttmynd/heimildarmynd og gera tillögu að verkaskiptingu þeirra í milli
  • gera áætlun yfir tökustaði, helstu leikmuni, leikmynd og búnað, sem þarf til að framleiða stuttmynd/heimildarmynd
  • nýta þekkingu sína til gagnrýnna skoðanaskipta um uppbyggingu handrits fyrir stuttmynd/heimildarmynd

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
  • gera góða hugmynd að sögu að framúrskarandi handriti fyrir stuttmynd/heimildarmynd, með ítrekaðri endurskoðun og rýnivinnu
  • skila fullbúnu handriti að stuttmynd/heimildarmynd með fylgiskjölum fyrir framleiðanda og leikstjóra og lykilstarfsfólk
  • vinna sem faglegur gagnrýnandi í rýnihópi fyrir handrit að stuttmynd/heimildarmynd
  • finna og velja tökustaði stuttmyndar/heimildarmyndar og gera tímaáætlun um tökur
  • vinna nauðsynleg fylgigögn, kynningarefni og skjöl fyrir framleiðanda
Nánari upplýsingar á námskrá.is