Nemendafélag FNV sér m.a. um viðburði og hagsmunavörslu fyrir nemendur skólans. Það er jafnframt fulltrúi nemenda gagnvart stjórnendum skólans og vinnur náið með þeim að framgangi félagslífs nemenda. Starfsemi nemendafélagsins er öflug og setur mark sitt á daglega starfsemi skólans. NFNV sér m.a. um útgáfu á skólablaðinu Molduxa og heldur úti síðu á Fésbókinni á slóðinni https://www.facebook.com/nemo.fnv.
Í upphafi haustannar sér nemendafélagið um móttöku nýnema og býður þá velkomna til náms og þátttöku í félagslífi skólans, auk þess að standa fyrir skiptibókamarkaði með notaðar námsbækur. Á haustönn er haldið veglegt Menningarkvöld sem opið er almenningi, þar koma bæði nemendur og utanaðkomandi skemmtikraftar fram. Opnir dagar á vorönn eru hápunkturinn í félagslífinu og tónlistarklúbburinn stendur m.a. fyrir árlegri undankeppni fyrir Söngkeppni framhaldsskólanna.
Leiklistin hefur blómstrað undanfarin ár. Uppsetning á leikriti / söngleik er árlegur viðburður. Mikil aðsókn er í hlutverk og allir geta verið með, því margt þarf að gera; leika, syngja, sminka / farða, smíða og finna leikmuni. Þá eru hljóðmenn og ljósamenn ómissandi. Þetta er viðburður sem tekur bróðurpart haustannar,en starf sem þetta er mjög gefandi og lærdómsríkt og því vel tímans virði sem lagður er i það.
Íþróttalíf skólans er mjög samtvinnað starfsemi íþróttafélaganna á Sauðárkróki og gefst nemendum FNV kostur á að æfa og starfa með þeim. Nemendafélagið tekur jafnan þátt í framhaldsskólamótum í íþróttum s.s. knattspyrnu og frjálsum íþróttum. Þá hafa svo nefndir frjálsir tímar í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki lengi notið vinsælda innan skólans, en í þeim er boðið upp á fjölbreyttar íþróttir á vegum NFNV og eru þeir opnir öllum nemendum FNV þeim að kostnaðarlausu. Í þessum tímum eru gjarnan sett upp innanskólamót í hinum ýmsu greinum íþrótta.
Reglulega eru haldnar samkomur á vegum nemendafélagsins og eru þær jafnan vel sóttar. Öll meðferð og neysla áfengis og annarra vímuefna er bönnuð á samkomum í nafni skólans eða nemendafélagsins.