- Heimavist Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra er heimili nemenda og skulu þeir njóta þar heimilisfriðar. Markmið þessara heimavistarreglna er að tryggja hvíldar- og vinnufrið vistarbúa og vera til leiðsagnar ef heimilisfriðnum er stefnt í hættu.
- Skólameistari fer með yfirstjórn heimavistar og vistarstjóri í umboði hans. Vistarbúum ber að fara að fyrirmælum þeirra í öllu sem varðar umgengni á heimavist og virða heimavistarreglur í hvívetna. Allir vistarbúar eru skyldugir til að sækja vistarfundi sem skólameistari, vistarstjóri eða heimavistarráð boða. Heimavistarstjórn skal halda gerðabók um störf sín.
- Skólameistari og vistarstjóri eiga aðgang að herbergjum vistarbúa hvenær sem er til eftirlits. Þeir skulu gæta tillitssemi og nærgætni. Öryggis- / eftirlitsmyndavélar eru staðsettar á eftirtöldum stöðum: Ein vél er við aðalinngang heimvistarinnar, ein í anddyri og ein myndvél utanhúss við aðalinngang. Þá eru myndavélar á göngum heimavistar. Tilgangur vöktunarinnar er að tryggja öryggi og næði íbúa vistarinnar og gesta þeirra. Ekki er um hljóðupptökur að ræða. Íbúar heimavistar eiga rétt á að fá vitneskju um:
- hvaða upplýsingar um þá er eða hefur verið unnið með,
- tilgang öryggis-/eftirlitsmyndavéla,
- hver fær, hefur fengið eða mun fá upplýsingar um þá,
- hvaðan upplýsingarnar koma,
- hvaða öryggisráðstafanir eru viðhafðar - (Sbr. lög nr. 77/ 2000),
- að vöktun fer fram allan sólarhringinn á starfstíma skólans,
- að upptökur af vöktun eru geymdar í 30 daga áður en þeim er eytt.
Viðeigandi merkingar um eftirlits-/öryggismyndavélar eru á útihurðum og í aðalanddyri heimavistar. Íbúar á heimavist skulu kynna sér reglur um öryggis- /eftirlitsmyndavélar.
- Heimavistarstjórn skipa: Skólameistari, vistarstjóri og sex trúnaðarmenn nemenda kosnir af nemendum í septembermánuði ár hvert og forstöðumaður mötuneytis þegar málefni mötuneytis eru á dagskrá. Heimavistarráð er skipað sömu aðilum öðrum en skólameistara. Við kosningu trúnaðarmanna í heimavistarstjórn skal þess gætt að kynjahlutföll séu sem jöfnust. Starfstími fulltrúa nemenda hefst þegar að kosningu lokinni og lýkur við lok skólaárs. Hafi nemandi fengið áminningu vegna brota á reglum heimavistar telst hann ekki kjörgengur til trúnaðarstarfa á heimavist. Heimavistarstjórn kemur saman eigi sjaldnar en tvisvar á önn.
- Hver vistarbúi skal annast ræstingu á herbergi sínu, sturtuklefa og salerni. Herbergi skulu þrifin minnst einu sinni í viku. Vistarstjóri fylgist vikulega með að þessar reglur sú vitar. Séu íbúar ekki við á skoðunartíma hefur vistarstjóri heimild til að skoða herbergið án þeirra nærveru. Vistarstjóri getur ákveðið nánar um frekari ræstingu á heimavistarhúsnæðinu á kostnað nemanda ef ræsting er ekki talin viðunandi að hans mati. Vistarbúum er óheimilt að ganga um heimavistina á útiskóm.
- Nemendum er skylt að halda umhverfi vistarinnar hreinu. Vistarstjóri getur gert nemendum að hreinsa lóðina eftir þörfum eða laga til innan vistar.
- Hver nemandi er ábyrgur fyrir að herbergi það, sem hann gistir, sé í sama horfi í annarlok og í annarbyrjun. Nemendur eru bótaskyldir fyrir skemmdum, sem þeir kunna að valda og skulu þeir greiða tryggingargjald sem þeir fá endurgreitt í annarlok, ef engar skemmdir eru eða vanþrif, sbr. 5 grein. Sjá nánar í gjaldskrá heimavistar: https://www.fnv.is/is/thjonusta/heimavist/gjaldskra
- Skemmdir á húsum eða munum heimavistar skal tilkynna vistarstjóra. Verði nemandi uppvís að þjófnaði á eigum eða munum vistarbúa eða starfsmanna skólans, ber að vísa honum af vist.
- Nemendur eru ábyrgir fyrir öllum eigum sínum. Nemendur skulu læsa dyrum að herbergjum sínum fari þeir frá. Skólinn tryggir hvorki skófatnað nemenda né annan fatnað.
- Vistarbúar skulu ávallt gæta þess að valda ekki öðrum ónæði, s.s. með ærslum eða hávaða frá hljómflutningstækjum, útvarpi, sjónvarpi, tölvu né á nokkurn annan hátt. Eftir kl. 22:00 á að vera næði til heimanáms. Frá miðnætti til klukkan 07:00 skal vera alger næturró, heimsóknir nemenda innan vistar eru óheimilar á þessum tíma án sérstaks leyfis vistarstjóra og gilda sömu ákvæði og um næturgesti.
- Ætli ósjálfráða nemandi að vera fjarverandi um nætursakir þarf forráðamaður að gefa leyfi fyrir því. Sjálfráða vistarbúar skulu tilkynna vistarstjóra eða næturverði með fyrirvara ætli þeir sér að vera fjarverandi um nætursakir.
- Gestir á heimavist skulu fara eftir þessum heimavistarreglum og er hver vistarbúi ábyrgur fyrir sínum gesti. Ber honum að upplýsa viðkomandi um tilvist öryggis-/eftirlitsmyndavéla á heimavistinni og reglur sem um þær gilda sbr. 3. grein. Engar heimsóknir eru leyfðar eftir kl. 24:00 og þá skulu aðrir gestir en næturgestir hafa yfirgefið heimavistina. Sæki íbúi um leyfi til að hafa næturgest getur vistarstjóri heimilað það. Um slíkt leyfi skal sækja til vistarvarðar fyrir kl. 22:00 sama dag. Leyfi herbergisfélaga verður að liggja fyrir áður en slíkt er heimilað og forráðamanna ef nemandi er ekki sjálfráða. Íbúar á Sauðárkróki fá ekki leyfi til gistingar á heimavist. Skólameistari getur þó heimilað undanþágu frá þessu ákvæði.
- Nemandi á heimavist getur fyrirgert rétti sínum til dvalar á heimavist með slakri skólasókn eða vanrækslu í námi. Vistarstjóri fylgist með viðveru nemenda og gerir ráðstafanir ef ástæða er til.
- Reykingar eru bannaðar í heimavistarhúsnæði og á lóð heimavistarinnar samkvæmt landslögum. Sama gildir um aðra tóbaksnotkun og rafsígarettur.
- Neysla og geymsla áfengis eða umbúða þess er bönnuð í húsakynnum heimavistar og á lóð hennar. Sama gildir um önnur vímuefni. Þá er nemanda óheimilt að dvelja á heimvistinni undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.
- Vistun gæludýra á heimavist er bönnuð. Þó getur heimavistarstjórn veitt undanþágu frá þessu ákvæði.
- Brot á sérhverri grein þessara reglna varðar áminningu eða brottrekstur.
- Íbúar á heimavist bera sjálfir kostnað af nettengingu á herbergjum sínum. Óskum um nettengingu skal komið til umsjónarmanns fasteigna í upphafi annar.
- Vistarbúar skulu hafa reglur heimavistar uppi við á herbergjum sínum. Brjóti ósjálfráða nemandi þessar reglur ber skólanum að gera forráðamanni viðvart um eðli brotsins og viðurlög. Reglur þessar gilda frá og með útgáfudegi.
Sauðárkróki 4. janúar 2022,
Ingileif Oddsdóttir, skólameistari.
Reglur þvottahúss heimavistar
- Þvottahús er starfrækt við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
- Vistarstjóri fer með stjórn þvottahússins og sér um allan þvott sem berst þangað. Heimavistarstjórn er heimilt að setja sérreglur um þvottahúsið ef svo ber undir.
- Nemendum er úthlutað ákveðnum þvottadögum 4 daga vikunnar og raðast þeir niður á herbergin.
- Allur þvottur skal vera í númeruðum þvottakörfum sem nemendur fá hjá vistarstjóra.
- Allir sokkar og öll nærföt skulu vera í þvottaskjóðum. Æskilegt er að ljós og dökkur þvottur sé ekki settur saman.
- Allur óskilaþvottur er gefinn til Rauða kross Íslands í lok skólaárs.
- Ef þvottur skemmist eða augljóslega týnist í þvottahúsi, meta stjórnendur skólans hverju sinni hvort hann skuli bættur og þá með hvaða hætti.
- Íbúar þurfa að afhenda þvott kvöldið fyrir þvottadag eða fyrir kl. 09:00 á þvottadag.
- Nánari tilkynningar frá vistarstjóra eru hengdar upp á vistinni.
Sauðárkróki 19. maí 2014,
Ingileif Oddsdóttir, skólameistari