Í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra er lögð áhersla á nám á bóknámsbrautum, iðnnámsbrautum og starfsnámsbrautum. Boðið er upp á nám fyrir breiðan hóp nemenda.
Leiðarljós skólans eru grunngildin vinnusemi, virðing og vellíðan. Í skólanum er lögð áhersla á að nýta til fulls kosti áfangakerfisins og hafa fjölbreytnina að leiðarljósi til þess að nemendur geti fundið sér nám við hæfi. Áfangakerfið og fjölbreytni náms í skólanum eykur ábyrgð nemenda á eigin námi og námsvali, ábyrgðin þroskar þá og gerir þá um leið hæfari til þátttöku í samfélaginu. Að velja sér námsleiðir eftir áhuga, getu og metnaði er upphafið að þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi nútímans. Það liggur því í eðli skólans að fjölbreytni í kennsluaðferðum er mikil, sveigjanleiki í námi og námsframboði sömuleiðis.
Öflugt stuðningskerfi er við nemendur í skólanum og er það hluti af kennslufræðilegri hugmyndafræði skólans sem ítrekar með því að skólinn sé tækifæri fyrir alla. Í skólanum er kappkostað að uppfæra tækja- og tæknibúnað í takt við kröfur tímans og þannig er tryggt að nemendur skólans fari frá skólanum vel búnir til frekara náms og / eða til þátttöku í atvinnulífinu. Kennarar eru hvattir til þess að vinna þróunarstarf og sækjast eftir endurmenntun til að auka nýbreytni og viðhalda faglegum metnaði.