Í bíliðngreinum blandast saman nútíma tölvu- og hátækni og hefðbundið handverk. Fagmenn í greinunum vinna fjölbreytt störf m.a. við viðgerðir, viðhald og nýsmíði bifreiða og vinnuvéla af öllu tagi.
Bifvélavirkjar starfa við eftirlit, viðgerðir og viðhald hvers kyns vélknúinna ökutækja. Þeir starfa á bifreiðaverkstæðum, skoðunarstöðvum og skyldum vinnustöðum.
Bifvélavirki er lögverndað starfsheiti og bifvélavirkjun lögvernduð iðngrein.
Forkröfur
Nemendur skulu hafa lokið grunnskólaprófi. Inntökuskilyrði eru nánar útfærð í skólanámskrá.
Skipulag
Áhersla er lögð á að nemendur kynnist í námi sínu þeim verkferlum og tækni sem beitt er í atvinnulífinu og er leitast við að hafa samstarf við þau iðnfyrirtæki sem fremst standa á sviði bíliðna hverju sinni þannig að nemendur kynnist því verklagi sem þar er stundað. Nemendur takast á við hagnýt verkefni og er verklegt nám að stærstum hluta einstaklings- og verkefnamiðað. Hagnýtir og fræðilegir þættir eru tengdir saman eins og kostur er þannig að nemendur öðlist sem dýpstan skilning á þeim aðferðum sem beitt er við hvern verkþátt. Í bóklegum greinum er leitast við að svara kröfum samfélagsins um breiða, almenna menntun. Grunnþáttum menntunar eru gerð skil í ýmsum námsáföngum og leitast við að efla gagnrýna hugsun og sköpunarkraft nemenda með fjölbreyttum hætti.
Námsmat
Námsmati er ætlað að veita haldgóða mynd af hæfni nemanda í ljósi hæfniviðmiða einstakra námsáfanga auk upplýsinga um framkvæmd kennslunnar og árangur þeirra náms- og kennsluaðferða sem beitt er. Tilgangur þess er ekki síður að veita nemandanum endurgjöf og leiðbeina honum á leið sinni í gegnum námið í viðkomandi áfanga. Því er um leiðsagnarmat (e. formative assessment) að ræða í öllum áföngum. Sem dæmi um námsmatsaðferðir má nefna verkefnavinnu, skrifleg, munnleg og verkleg próf, jafningjamat, sjálfsmat, ritgerðarsmíð og skýrslugerð.
Reglur um námsframvindu
Til þess að standast námsáfanga þurfa nemendur að ná einkunninni 5,0 eða S (staðið). Nánari útfærslu er að finna í skólanámskrá.
Hæfniviðmið
- taka virkan þátt í lýðræðissamfélagi.
- tileinka sér heilbrigðan lífsstíl, snyrtimennsku, kurteisi og þjónustulund.
- sýna öðrum virðingu óháð kyni, þjóðerni, aðstæðum og lífsgildum.
- sýna frumkvæði og beita sköpunargáfu til lausnar viðfangsefna.
- leysa verkefni sem fela í sér meðferð á tölum og tölfræði.
- gera grein fyrir skoðunum sínum og hugmyndum á fjölbreyttan hátt.
- sýna ábyrgð í umgengni um umhverfi sitt og náttúru.
- meta, greina og lagfæra algengustu bilanir í helstu gerðum ökutækja, vinnuvéla og eftirvagna.
- gera við eða skipta um slitna eða bilaða hluti í helstu gerðum ökutækja, vinnuvéla og eftirvagna ásamt því að framkvæma reglubundna þjónustu ökutækja.
- veita ráðgjöf um mögulega viðgerð og leiðbeina um hagkvæmustu aðgerðir með tilliti til óska viðskiptavinarins um hagkvæmni og með hliðsjón af umferðaröryggi, ástandi, útliti og notagildi ökutækisins.
- vinna með öðrum að skipulagi viðgerða og veita leiðbeiningar um rétta eða hagkvæma aðgerð út frá faglegum sjónarmiðum.
- leysa verk sín af hendi með aðstoð handbóka og annarra tiltækra stoðgagna á íslensku og ensku.
- vinna á öruggan hátt í háspenntum ökutækjum.
- vinna að bilanagreiningu, viðhaldi og stillingu (kvörðun) öryggisskynjara ökutækja sem og búnaðar sjálfökuhæfra ökutækja.
- leysa verk sín af hendi með hliðsjón af umferðarlögum, reglugerð um gerð og búnað ökutækja og með tilliti til umhverfissjónarmiða.
- skrá vinnuskýrslur og verklýsingar í ferilskrá ökutækis.
- útskýra rekstur, skipulag og uppbyggingu fyrirtækja og stofnana í greininni.
Rafræn ferilbók - skráning