Ábyrgð á starfsmannastefnu og starfsmannamálum.
Skólameistari ber ábyrgð á starfsmannastefnu Fjölbrautaskóla Norðurland vestra á Sauðárkróki og öllum starfsmannamálum skólans sbr. ákvæði 8. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla og reglugerð nr. 5/2001 um starfslið og skipulag framhaldsskóla og erindisbréf skólameistara. Skólameistari er ábyrgur fyrir að skipurit skólans sé öllum starfsmönnum skólans aðgengilegt ásamt greinagóðum starfs- og verklýsingum fyrir öll störf sem unnin eru í skólanum.
Ábyrgð og skyldur stjórnenda og annarra starfsmanna
Stjórnendur og starfsmenn bera jafna ábyrgð á að vinna að markmiðum skólans og veita sem besta þjónustu nemendum, foreldrum, forráðmönnum og öðrum þeim sem til skólans leita. Stjórnendur skulu tileinka sér ábyrga og lýðræðislega stjórnunarhætti og auðsýna jákvætt og uppörvandi viðmót í garð starfsmanna og nemenda. Þeir skulu leitast við að hafa sem virkast upplýsingastreymi til starfsmanna. Þá skulu stjórnendur hvetja starfsmenn til dáða í hvívetna.
Starfsmönnum Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra ber að sýna kurteisi, lipurð, réttsýni, alúð og samviskusemi í öllum störfum sínum. Þeir skulu mæta stundvíslega til starfa og forðast að aðhafast nokkuð í starfi sínu og utan þess sem rýrt getur trúverðugleika og traust þeirra. Starfmenn skóla starfa samkvæmt lögum, reglugerðum, erindisbréfum, skólanámskrá og gildandi fyrirmælum á hverjum tíma svo og ákvörðun skólameistara um skiptingu starfa milli starfsmanna. Þeim er skylt að hlýða löglegum fyrirskipunum skólameistara sbr. 15. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Starfsmaður skal gæta þagmælsku um atriði sem tengjast starfi hans skv. lögum þar að lútandi og fyrirmælum yfirmanns.
Starfsmanni ber, áður en hann stofnar til atvinnurekstrar eða tekur að sér starf í þjónustu annars aðila samhliða starfi, að greina skólameistara frá því sbr. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Starfsmenn skulu leitast við að fylgjast með nýjungum á starfssviði sínu og vera reiðubúnir til að takast á við ný og breytt verkefni.
Starfslýsingar
Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki gerir starfslýsingar fyrir öll störf sem unnin eru innan skólans. Skólameistari gengur frá starfslýsingum í samráði við viðkomandi starfsmann. Þegar ráðið er í nýtt starf skal starfslýsing ávallt liggja fyrir. Þegar nýir starfsmenn koma til starfa skal þeim tryggð leiðsögn um skólastarfið.
Starfsmannaviðtöl
Skólameistari annast viðtöl við starfsmenn í þeirri viðleitni skólans að auka vellíðan og starfshæfni hvers og eins. Hverjum starfsmanni skal gefinn kostur á a.m.k. einu viðtali annað hvert ár þar sem hann getur komið sjónarmiðum sínum á framfæri.
Fastur þáttur í starfsmannaviðtölum skal vera að ræða veikleika og styrkleika skólahaldsins og markmið þess. Skal starfsmanni gefið tækifæri til að tjá sig um líðan sína í starfi og setja fram óskir um betrumbætur á starfsaðstöðu sinni. Þá skal yfirfara verklýsingar og starfslýsingar eftir atvikum.
Símenntun
Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra hvetur starfsmenn sína til að viðhalda og auka færni sína í starfi með símenntun af ýmsu tagi bæði innan skólans og utan. Það er á ábyrgð starfsmanns og yfirmanns hans að viðhalda og auka fagþekkingu viðkomandi. Gera skal árlega könnun á óskum starfsmanna um námskeiðahald fyrir starfsmenn skólans og niðurstöður hennar kynntar á starfsmannafundi.
Starfsandi
Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra leggur áherslu á góðan starfsanda sem byggir á jákvæðu viðmóti, kurteisi, umburðarlyndi og gagnkvæmri virðingu starfsmanna. Hegðun sem brýtur gegn almennu velsæmi eða veldur á annan hátt vanlíðan eða óþægindum verður undir engum kringumstæðum liðin. Þetta á t.d. við um einelti og kynferðislega áreitni.
Öryggismál og vinnuvernd
Vinnuumhverfi skal vera skv. lögum og reglugerðum um aðbúnað, hollustuhætti, öryggi á vinnustöðum (nr. 46/1980) og reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum (nr. 77/1982). Við skólann starfar sérstök öryggisnefnd. Starfsmenn kjósa úr sínum hópi tvo fulltrúa og skólameistari tilnefnir tvo fulltrúa. Báðir fulltrúar skólameistara teljast öryggisverðir og báðir fulltrúar starfsmanna öryggistrúnaðarmenn. Þeir skulu í samvinnu fylgjast með því, að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað séu í samræmi við lög og reglur. Fulltrúa í öryggisnefnd skal tilnefna og kjósa til tveggja ára.
Sjá öryggishandbók á http://www.fnv.is/static/files/skolanamskra/oryggishandbok-24.02.20.pdf
Viðvera og vinnutími
Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki leggur áherslu á stundvísi og umsamda viðveru starfsmanna sinna. Skólameistari hefur umsjón með ástundun og stundvísi starfsmanna og gerir viðeigandi athugasemdir við þá ef ástæða er til.
- Kennarar í fullu starfi skili vinnu sinni á tímabilinu 8 til 16.10 virka daga vikunnar.
- Kennarar í meira en fullu starfi geta búist við að hluti yfirvinnu falli utan dagvinnumarka.
- Kennari, sem óskar eftir því að kenna annað hvort fyrir eða eftir hádegi, getur ekki gert kröfu um hærra starfshlutfall en 50%.
Til að ná þessum þremur markmiðum skulu töflusmiðir leitast við að gera stundaskrár nemenda með tilliti til námskrár, vals nemenda og markmiða þeirra með námi sínu og að hafa þær sem samfelldastar. Þá skal taka mið af óskum kennara eftir því sem mögulegt er án þess að brjóta meginreglur um jafnræði og markmið skólans að öðru leyti.
Notkun vímuefna
Öll notkun vímuefna (þar með talin notkun tóbaks og rafsígaretta) er bönnuð í húsnæði og á skólalóð Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á. Skólinn leitast við að aðstoða starfsmenn og nemendur við að vinna úr vandamálum sem tengjast notkun vímuefna.
Siðareglur
Starfsmönnum ber að sýna trúnað í samskiptum sínum við nemendur. Skólinn fer fram á að starfsmenn stundi ekki starfsemi sem gengur gegn hagsmunum skólans eða er í samkeppni við hann. Að öðru leyti vísast til stjórnsýslulaga um sama efni og eftirfarandi siðareglna Kennarasambands Íslands.
Kennari:
- Menntar nemendur.
- Eflir með nemendum gagnrýna hugsun, virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, umhverfi og menningu.
- Sýnir nemendum virðingu, áhuga og umhyggju.
- Skapar góðan starfsanda og hvetjandi námsumhverfi.
- Hefur jafnrétti að leiðarljósi.
- Vinnur gegn fordómum, einelti og öðru ranglæti sem nemendur verða fyrir.
- Kemur vel fram við nemendur og forráðamenn og virðir rétt þeirra.
- Gætir trúnaðar við nemendur og forráðamenn og þagmælsku um einkamál þeirra sem hann fær vitneskju um í starfi sínu.
- Viðheldur starfshæfni sinni og eykur hana.
- Vinnur með samstarfsfólki á faglegan hátt.
- Sýnir öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu.
- Gætir heiðurs og hagsmuna stéttar sinnar.
(Siðareglur K.Í.)
Viðmið fyrir góða starfshætti ríkisstarfsmanna
Leiðbeiningar um þau viðmið og gildi sem ríkisstarfsmönnum ber að fylgja í daglegum störfum sínum,sbr. dreifibréf 1/2006 frá Fjármálaráðuneytinu:
- Ríkisstarfsmaður gætir þess að fara vel með það vald sem honum er falið og beita því í þágu almannahagsmuna, gæta sanngirni og meðalhófs en ekki nýta það í eigin þágu.
- Beiti ríkisstarfsmaður mati við meðferð valds, sem honum er fengið, þar sem velja þarf á milli einstaklinga, t.d. við ráðningu í störf, úthlutun styrkja eða annarra gæða eða gerð samninga um verktöku, skal hann byggja ákvörðun sína á málefnalegum sjónarmiðum, s.s. verðleikum og hæfni. Óheimilt er að mismuna málsaðilum á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða, s.s. kynferðis, kynþáttar, kynhneigðar, eða samfélagslegrar stöðu að öðru leyti.
- Ríkisstarfsmaður gætir þess að persónulegir og fjárhagslegir hagsmunir hans, fjölskyldu hans eða vina fari ekki í bága við starfsskyldur hans. Þannig skal hann t.d. ekki taka þátt í ákvörðunum ef hann tengist málsaðilum fjölskylduböndum, ef hann á sjálfur aðild að málinu eða ef það varðar vini hans eða fyrrverandi maka.
- Ríkisstarfsmaður skal ekki þiggja eða sækjast eftir gjöfum eða fjármunum frá einstaklingum, fyrirtækjum eða öðrum sem á einn eða annan hátt tengjast starfi hans ef almennt má líta á það sem endurgjald fyrir greiða eða sérstaka þjónustu. Sanngjarnt er að víkja frá þessu ef um afmælisgjafir eða annars konar tækifærisgjafir er að ræða enda séu verðmæti þeirra innan hóflegra marka. Hafa skal samráð við yfirmann ef vafi leikur á hvort starfsmanni er heimilt að taka við gjöf.
- Ríkisstarfsmaður skal stuðla að því að upplýsingar um ákvarðanir og starfsemi þess stjórnvalds, stofnunar eða fyrirtækis sem hann starfar hjá séu aðgengilegar almenningi enda sé ekki um upplýsingar að ræða sem leynt þurfa að fara samkvæmt lögum.
- Ríkisstarfsmaður gætir þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara. Honum er óheimilt að afla sér trúnaðarupplýsinga í starfi sínu sem ekki hafa þýðingu fyrir starfið. Hann skal ekki hagnýta sér upplýsingar sem hann hefur fengið í starfi sínu og ekki hafa verið kynntar eða gerðar almennar, til þess að skapa sjálfum sér eða öðrum ávinning, þ. á m. fjárhagslegan, enda þótt ekki sé um trúnaðarupplýsingar að ræða. Ríkistarfsmaður gætir þagnarskyldu sinnar þótt hann hafi látið af starfi sínu.
- Ríkisstarfsmanni ber að fara vel með almannafé, gæta þess að það sé vel nýtt og sé ekki notað á annan hátt en ætlast er til lögum samkvæmt.
- Ríkisstarfsmaður sem verður var við spillingu, ólögmæta eða ótilhlýðilega háttsemi, skal koma upplýsingum um slíka háttsemi til réttra aðila. Til réttra aðila geta m.a. talist stjórnendur stofnunar, hlutaðeigandi fagráðuneyti og eftir atvikum Ríkisendurskoðun eða lögregla. Ríkisstarfsmaður sem í góðri trú greinir á réttmætan hátt frá upplýsingum samkvæmt þessum lið, skal á engan hátt gjalda þess.
Endurskoðun starfsmannastefnu
Starfsmannastefna skólans skal sæta endurskoðun kennarafundar reglulega.