Skipting sérgreina á annir
Sjúkraliðanám er 206 feininga nám með námslok á 3. hæfniþrepi. Námið skiptist í almennar greinar, heilbrigðisgreinar og nám í sérgreinum sjúkraliðabrautar. Nám í sérgreinum sjúkraliðabrautar er bæði bóklegt og verklegt nám í skóla og starfsnám á heilbrigðisstofnunum. Sjúkraliðanám tekur að jafnaði 3 ár eða 6 annir. Tilgangur sjúkraliðanáms er að undirbúa nemendur undir krefjandi störf við hjúkrun, endurhæfingu og forvarnir bæði á heilbrigðisstofnunum og á heimilum fólks þar sem reynir mikið á samskiptafærni og siðferðisvitund starfsmanna. Í náminu er rík áhersla lögð á samvinnu við starfsfólk og stjórnendur í heilbrigðisþjónustu. Sjúkraliðanám getur verið góður grunnur fyrir frekara nám í heilbrigðisvísindum. Að lokinni brautskráningu frá skóla getur nemandi sótt um löggildingu starfsheitis til Embættis landlæknis og öðlast þá réttindi til að starfa sem sjúkraliði á Íslandi. Starfsheitið sjúkraliði er lögverndað.
Forkröfur
Grunnskólapróf í samræmi við samræmt námsmat sem ráðuneytið birtir um viðmið við lok grunnskóla í almennum hluta Aðalnámsskrár grunnskóla. Til að hefja nám á öðru hæfniþrepi í dönsku, ensku, íslensku eða stærðfræði þarf nemandi að hafa náð a.m.k. hæfnieinkunn B við lok grunnskóla eða að hafa lokið námi á fyrsta þrepi í þessum greinum.
Skipulag
Skipulag námsins tekur mið af hæfnikröfum sjúkraliða og þeim kröfum sem Mennta- og menningarmálaráðuneytið (mrn) setur um hæfniþrep áfanga og brauta. Nám í kjarnagreinum íslensku, ensku og stærðfræði ásamt námi í öðrum almennum greinum hefst á 1. önn. Gert er ráð fyrir í námskránni að nám í kjarnagreinum hefjist á 2. þrepi. Á annarri og þriðju önn bætast við framhaldsáfangar kjarnagreina og nám í heilbrigðisgreinum sem eru nauðsynlegir undanfarar náms í sérgreinum brautar og starfsnáms. Á 4.-6. önn eykst sérhæfing námsins ennþá frekar með námi í sérgreinum brautar og starfsnámi. Skólum er frjálst að flétta saman bóknámi og vinnustaðanámi að loknum fyrsta áfanga í bóklegri og verklegri hjúkrun samkvæmt skólanámskrá. Þannig getur vinnustaðanám farið fram á stofnunum samhliða bóknámi eða sem sérstök verkleg önn á námstíma.
Námsmat
Með námsmati er kannað að hve miklu leyti nemandi hefur tileinkað sér þau markmið sem sett eru í viðkomandi áföngum. Námsmat skal vera fjölbreytt. Í upphafi hvers skólaárs skal nemendum kynnt kennsluáætlun og námsmarkmið svo og tilhögun námsmats hvers áfanga. Æskilegt er að í námsmati felist leiðsögn til nemenda um hvernig þeir geti með árangursríkum hætti hagað námi sínu. Hver skóli setur sér reglur um námsmat og birtir í skólanámskrá.
Starfsnám
Starfsnám skiptist í vinnustaðanám og starfsþjálfun, hvort tveggja á heilbrigðisstofnun. Skólar gera samkomulag við heilbrigðisstofnanir um vinnustaðanám og starfsþjálfun með hæfniviðmið brautar að leiðarljósi. Æskilegt er að við hvern skóla sé stofnað fagráð í samvinnu við helstu samstarfsaðila skólans í sjúkraliðanámi. Tilgangur fagráðs er að vera samstarfsvettvangur skóla og heilbrigðisstofnana um vinnustaðanám. Vinnustaðanám er skipulagt sem 24 eininga nám á heilbrigðisstofnunum undir leiðsögn sjúkraliða og deildarstjóra viðkomandi deildar eða einingar. Tilgangur vinnustaðanáms er að nemendur öðlist hæfni til að takast á við margbreytilegar aðstæður á heilbrigðisstofnunum, verði færir um að axla ábyrgð og sýna sjálfstæði í starfi. Hverjum nemanda skal fylgja ferilbók þar sem gerð er grein fyrir þjálfun hans í vinnustaðanámi, verkefnum er lýst og mat lagt á hæfni og framvindu náms. Við upphaf vinnustaðanáms setur nemandi sér fagleg og persónuleg markmið sem verða leiðarljós í náminu og í samskiptum hans við skjólstæðinga, leiðbeinanda og starfsfólk. Nemandi og leiðbeinandi í vinnustaðanámi bera ábyrgð á skráningu ferilbókar sem er hluti af námsmati. Vinnustaðanám er skipulagt út frá hæfniviðmiðum brautar og skilgreindum hæfnikröfum sjúkraliðastarfsins. Stofnun sem gerir samning um vinnustaðanám nemenda skuldbindur sig til að fylgja þeim markmiðum. Kennslustjóri/fagstjóri skipuleggur verknámsáfanga í samvinnu við verknámskennara. Umsjónarkennarar verknámsáfanga fylgja nemendum eftir og meta, í samvinnu við leiðbeinendur á heilbrigðisstofnunum, hvort þeir hafi staðist verklegan áfanga. Starfsþjálfun fer fram á heilbrigðisstofnunum og stendur yfir í sextán vikur, sem samsvarar 27 einingum í námskrá. Að loknum fyrsta áfanga vinnustaðanáms er skólum frjálst að skipuleggja hluta af starfsþjálfun samkvæmt skólanámskrá. Markmið starfsþjálfunar er að nemandi þjálfist í störfum sjúkraliða, kynnist vaktaskipulagi deilda/stofnana og fái tækifæri til að bæta við sig þekkingu í ýmsum þáttum hjúkrunar. Við upphaf starfsþjálfunar setur nemandi sér markmið í samvinnu við deildarstjóra/yfirmann á viðkomandi deild. Starfsþjálfunin skal skipulögð út frá hæfnikröfum sjúkraliðastarfsins og út frá hæfniviðmiðum sjúkraliðabrautar. Hjúkrunardeildarstjóri eða staðgengill hans ásamt sjúkraliðanema fara yfir markmiðin að hverju starfsþjálfunartímabili loknu. Eftir hvert starfsþjálfunartímabil þarf nemandi að skila mati og umsögn frá hjúkrunardeildarstjóra eða staðgengli hans um það hvort hann hafi hafi náð markmiðum starfþjálfunar og staðist þær kröfur sem gerðar eru til nemanda í starfsþjálfun.
Reglur um námsframvindu
Nemendur þurfa að hafa lokið undanförum til þess að halda áfram námi í hverri grein þar sem það á við. Við það er miðað að sjúkraliðanám taki að jafnaði sex annir.
Hæfniviðmið
- hagnýta sérhæfða þekkingu og leikni í hjúkrunarfræði og heilbrigðisgreinum til að takast á við viðfangsefni sjúkraliðastarfsins
- forgangsraða viðfangsefnum og greina hvaða hjúkrunarmeðferðir eigi við hverju sinni samkvæmt viðurkenndum flokkunarkerfum og skráningu í hjúkrunarfræði
- beita, rökstyðja og ígrunda þær hjúkrunarmeðferðir sem hann framfylgir samkvæmt hjúkrunaráætlun hverju sinni
- beita innsæi, gagnrýnni og skapandi hugsun við lausn hjúkrunarviðfangsefna
- sýna faglega umhyggju gagnvart skjólstæðingum
- miðla þekkingu og upplýsingum til skjólstæðinga, aðstandenda og samstarfsfólks
- nýta samskiptafærni við margvíslegar aðstæður og tjá eigin hugmyndir og skoðanir
- nýta tölvukunnáttu við upplýsingaleit, varðveislu og skráningu upplýsinga ásamt mati á faglegum upplýsingum
- taka þátt í þverfaglegu samstarfi og koma á framfæri sérhæfðri þekkingu sem við á hverju sinni
- vinna eftir gæðaviðmiðum og reglum um vinnuvernd
- starfa eftir siðareglum og sýna siðferðisvitund, fordómaleysi, umbyrðarlyndi og víðsýni í störfum sínum
- vinna að eigin starfsþróun og tileinka sér nýjungar í starfi.
Kjarni