Lestur, Skrif og Skapandi Hugsun
Einingafjöldi: 5
Þrep: 2
Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur geti notað fjölbreyttan orðaforða og algeng orðasambönd í ræðu og riti. Talþjálfun miðar að því að nemendur læri að orða hugsanir sínar skýrt í samtölum og frásögnum. Hver nemandi á að geta lagt til talað efni af tiltekinni lengd eftir markvissan undirbúning í formi kynningar fyrir samnemendur. Ritþjálfun fer að mestu fram með notkun tölvu og nemendur þjálfaðir í að beita mismunandi stílbrögðum við ritun texta og eiga að geta skrifað 150 – 200 orða verkefni um efni sem búið er að vinna með. Nemendur eru hvattir til að hlusta á danskt mál og tónlist af ýmsu tagi á vefmiðlum. Nemendur lesa texta almenns eðlis og sérhæfða texta ýmist prentaða eða af veraldarvefnum, þar sem unnið verður með efni sem tengjast hinum sex námsþáttum. Lögð er áhersla á að nemendur tileinki sér sjálfstæð vinnubrögð, beri ábyrgð á eigin námsframvindu og séu meðvitaðir um mismunandi aðferðir til að tileinka sér tungumál. Áhersla er lögð á að efla samvinnu nemenda auk þess sem þeim gefst kostur á að sýna hæfni sína með fjölbreyttum verkefnaskilum sem ýtir undir lausnamiðaða hugsun og sköpun.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- • ólíkum viðhorfum og gildum og hvernig þau móta danska og íslenska menningu
- • mikilvægi þess að skilja og tala norðurlandamál
- • orðaforða til markvissrar notkunar, bæði munnlega og skriflega
- • notkun hjálpargagna, meðal annars orðabóka á netinu
- • að miðla þekkingu sinni munnlega og skriflega
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- • hlusta á danskt mál og skilja meginmál t.d. í fréttum og í leiknu efni
- • lesa sér til gagns texta um margvísleg málefni
- • tjá hugsanir sínar á dönsku, skriflega og munnlega með skapandi hætti.
Nánari upplýsingar á námskrá.is