LÝÐH1HÞ02 - Heilsuefling og þjálfun

Lýðheilsa

Einingafjöldi: 2
Þrep: 1
Forkröfur: LÝÐH1HÞ 01
Í áfanganum er farið yfir fræðilega þætti upphitunar, liðleika-, styrktar- og þolþjálfunar. Farið er yfir mikilvægi upphitunar í fyrirbyggingu meiðsla og mikilvægi þolþjálfunar til að koma í veg fyrir ýmsa velferðarsjúkdóma. Farið er yfir mikilvægi líkamsstyrks fyrir stoðkerfi líkamans, líkamsbeitingu og líkamsreisn. Farið er yfir mikilvægi liðleika og liðleikaþjálfunar fyrir líkamann og mikilvægi þess að ástunda liðleikaþjálfun samhliða styrktarþjálfun. Komið er inn á mismunandi möguleika og aðferðir við uppbyggingu og þjálfun á þoli, styrk og liðleika. Nemendum verða kynntar einfaldar aðferðir til að mæla og meta þol, styrk, liðleika og líkamsstöðu. Komið verður inn á snerpu, hraða og samhæfingu hreyfinga og hvernig hægt er að vinna með og bæta þá þætti. Farið er yfir helstu grunnatriði skyndihjálpar með sérstakri áherslu á meðhöndlun meiðsla og slysa er verða við iðkun íþrótta. Nemendur fá fræðslu um hollt mataræði, heilbrigðan lífsstíl og gildi þess að lifa heilbrigðu lífi almennt. Farið er lauslega yfir helstu forsendur þjálfunar, s.s. starfsemi vöðva, liða, tauga sem og flutning súrefnis og næringar um líkamann. Fjallað er um gildi reglulegrar og skipulagðar þjálfunar og nemendum gerð grein fyrir ábyrgð á eigin líkama.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
  • upphitun og hvernig upphitun er mismunandi milli greina
  • mikilvægi alhliða þolþjálfunar og hvernig byggja megi upp gott grunnþol
  • mikilvægi styrktar- og liðleikaþjálfunar fyrir stoðkefi líkamans, rétta líkamsbeitingu og líkamsreisn
  • mikilvægi skyndihjálpar og meðhöndlun algengustu meiðsla
  • mikilvægi réttrar líkamsbeitingar í daglegu lífi og við íþróttaiðkun
  • gildi og nauðsyn heilbrigðs lífernis fyrir heilsuna
  • mikilvægi alhliða líkamsræktar fyrir andlega og líkamlega heilsu

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
  • útbúa æfingaáætlanir sem nýtast honum við þjálfun á þoli, styrk og liðleika
  • nota góða vinnutækni og beita líkamanum rétt við leik og störf
  • nota einfaldar prófanir til að meta eigið líkamsástand - hvað varðar þol, styrk, liðleika og líkamsstöðu
  • efla á markvissan og einstaklingsbundinn hátt líkamshreysti og andlegan styrk
  • þekkja og velja holla fæðu

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
  • vinna áætlanir er lúta að almennri líkamsrækt og heilsueflingu
  • vinna eftir áætlunum er er lúta að almennri líkamsrækt og heilsueflingu
  • stunda fjölbreytta líkamsrækt í sínu nær umhverfi
  • framkvæma eigin þjálfáætlun sem miðar að því að auka líkamlegt þol og styrk
  • nýta sér upplýsingatækni við gerð áætlana fyrir alhliða líkams- og heilsurækt og við meta áhrif þjálfunar á líkamann
Nánari upplýsingar á námskrá.is