Jón Arnar Pétursson nemandi í húsasmíði við FNV stóð sig vel í Íslandsmóti iðnnema á dögunum. Hann keppti fyrir hönd skólans í húsasmíði og stóð sig með prýði og landaði 3. sæti. Við ákváðum að forvitnast örlítið um húsasmíðanemann. Jón Arnar er frá Sauðárkrók og því lá beinast við að fara í FNV. Hann byrjaði að vinna við smíðar hjá frænda sínum árið 2014 og það vakti áhuga hans á húsasmíðanáminu. „Námið hefur staðist væntingar og kennarar eru mjög góðir og hjálpa manni í gegnum þetta“ segir Jón Arnar.
„Ég hef alltaf haft gaman að því að vinna með höndunum, afi rekur verkstæði og við höfum líka verið að gera upp mótorhjól. Það er skemmtilegt að vinna með höndunum og sjá hvað maður getur smíðað“.
Undirbúningurinn fyrir Íslandsmótið fór þannig fram að allir nemendur smíðuðu stól og kennarar völdu í framhaldi af því nemanda til að keppa fyrir hönd skólans. Við tóku æfingar á skólatíma og líka aðeins um helgar. Jón Arnar segir að þátttaka í keppninni sjálfri var afslöppuð en það var smá stress að bíða eftir úrslitum. Hann er á lokaönninni og stefnir á sveinsprófið í vor. Að útskrift lokinni tekur við vinna í húsasmíði en Jón Arnar horfir til þess að verða sjúkraflutningamaður seinna meir.