heimildarmyndir
Einingafjöldi: 5
Þrep: 2
Forkröfur: KVMG2KT05 og KVMG2KL05
Í áfanganum verða skoðaðar mismunandi gerðir heimildarkvikmynda frá ýmsum tímum og rýnt í tilgang þeirra og heimildagildi. Allt frá fullkomlega sviðsettum, leiknum og mikið leikstýrðum heimildarmyndum til algerlega óleikstýrðra heimildarmynda þar sem kvikmyndatökuvél fylgist með líkt og fluga á vegg. Kynntar verða nokkrar helstu meginreglur um uppbyggingu, myndatöku og klippingu heimildarmynda fyrir sjónvarp og kvikmyndahátíðir. Nemendur leggja drög að eigin heimildarmynd sem þeir taka upp og klippa og skila í lok áfanga.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- helstu grundvallar hugtökum og meginreglum við gerð heimildarkvikmynda
- grunnatriðum við val á tökustöðum, beitingu kvikmyndatökuvélar og mismunandi sjónarhornum tökumanns við upptöku heimildarmyndar á tökustað
- dramatískri uppbyggingu handrits og kvikmyndatöku fyrir heimildarmyndir sem byggja á sönnum atburðum eða söguþræði
- samspili kvikmyndatöku og klippingar við gerð heimildarmynda er miðar að því að það kvikmyndaefni sem unnið er með í klippiforriti nýtist til að segja þá sögu sem um ræðir á skýran og greinargóðan hátt
- beitingu mismunandi upptökutækni, s.s. tímaskeiðaupptöku (timelaps) og hæghreyfinga (slow motion) við gerð heimildarmynda
- meginmun á eðli og gerð heimildarmynda og leikinna kvikmynda
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- gera handrit og tökuáætlun fyrir stutta heimildarmynd, sem nýtir upplýsingar úr umhverfinu á tökustað og fléttar inní á heiðarlegan hátt viðhorf og skoðanir þeirra er heimildarmyndin varðar
- meta hvaða tökustaðir henta mismunandi gerðum heimildarmynda og uppfylla þær kröfur er fram koma í handriti og tökuáætlun um sjónarhorn, bakgrunn og beitingu kvikmyndatökuvélar
- til að leggja mat á hvernig kvikmyndatöku skuli háttað á tökustað og hvaða upptökutækni og frásagnarform hentar til að skapa myndræna frásögn í formi heimildarmyndar
- undirbúa og framkvæma kvikmyndatöku fyrir heimildarmynd í samræmi við handrit og tökuáætlun
- færa stafrænt kvikmyndaefni fyrir heimildarmynd inní klippiforrit, merkja það og klippa, ásamt því að litaleiðrétta og hljóðsetja í grunnatriðum
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- gera greinarmun á mismunandi tegundum og uppbyggingu heimildarmynda og leggja mat á eðli þeirra og tilgang
- gera handrit og tökuáætlun að styttri heimildarmynd með hliðsjón af þeirri sögu eða þeim veruleika sem heimildarmyndin tekur til
- klippa og ganga frá stuttri heimildarmynd
- aðstoða við undirbúning og framkvæmd kvikmyndatöku fyrir heimildarmynd með það að leiðarljósi að kvikmyndatakan skili því efni sem þarf til að úr verði fullbúin heimildarmynd
- aðstoða við klippingu og frágang styttri heimildarmynda í sérhæfðu klippiforriti
Nánari upplýsingar á námskrá.is