KVMG3TU05 - Tungumál tökuvélarinnar (listræn kvikmyndataka)

tungumál tökuvélarinnar

Einingafjöldi: 5
Þrep: 3
Forkröfur: KVMG2FK05
Í áfanganum er lögð áhersla á listræna kvikmyndatöku. Nemendur rýna í sýnidæmi um mismunandi gerðir af framúrskarandi kvikmyndaefni. Nemendur rýna í beitingu myndavélarinnar til að kalla fram mismunandi tilfinningar og viðhorf áhorfandans og hvernig kvikmyndataka frá ólíkum sjónarhornum og við breytilegar aðstæður getur myndað listræna heild. Nemendur kvikmynda eigið efni í samræmi við handrit og tökuáætlun sem síðan verður nýtt við framleiðslu metnaðarfulls lokaverkefnis. Verkið skilast sem fullfrágengið myndverk. Samhliða verður farið dýpra í vinnubrögð við upptöku fréttaefnis fyrir sjónvarp.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
  • helstu hugtökum og orðaforða sem notuð eru til að lýsa myndmáli og myndrænni uppbyggingu kvikmynda
  • helstu lögmálum og venjum við mismunandi beitingu ljóss og lita við upptökur á kvikmyndaefni
  • helstu lögmál og venjum um val kvikmyndatökumanns á sjónarhornum, staðsetningu í ramma, hreyfingu innan ramma og hreyfingu kvikmyndatökuvélarinnar
  • helstu stoð- og hjálpartækjum til að auðvelda fjölbreytta beitingu kvikmyndatökuvélarinnar
  • beita mismunandi tækni við upptöku kvikmyndaefnis með það fyrir augum að hið upptekna efni myndi listræna heild
  • mikilvægi vandaðrar faglegrar hljóðupptöku á tökustað

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
  • setja fram á skýran og greinargóðan hátt hvernig beita skuli tökuvél til þess að ná fram myndrænni uppbyggingu, sjónarhornum og blæbrigðum sem sóst er eftir
  • vinna á faglegan hátt með leikstjóra og lykilstarfsmönnum að gerð nákvæmrar tökuáætlunar á tökustað kvikmyndar
  • vinna faglega áætlun fyrir lykilstarfsfólk á tökustað þar sem fram komi staðsetningar leikmyndar, lýsing, sjónarhorn og annað er varðar kvikmyndatökuna
  • velja kvikmyndatökuvélar er henta á tökustað hverju sinni
  • gera nákvæma áætlun yfir stoð- og hjálpartæki fyrir kvikmyndatökuvél á tökustað
  • gera áætlun um búnað og tæki til hljóðupptöku á tökustað
  • skrásetja, afrita og grófflokka stafrænt kvikmyndatökuefni að kvikmyndatöku lokinni

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
  • vinna sem aðstoðarstarfskraftur að gerð metnaðarfullar tökuáætlana fyrir listræna kvikmyndatöku
  • vinna sem aðstoðarstarfskraftur við val á kvikmyndatökuvélum er henta á tökustað hverju sinni
  • aðstoða kvikmyndatökustjóra við gerð áætlunar um stoð- og hjálpartæki fyrir kvikmyndatökuvél á tökustað
  • aðstoða við undirbúning og framkvæmd hljóðupptöku á tökustað
  • færa upptekið stafrænt efni af kvikmyndatökuvél inní stafræna gagnageymslu til flokkunar og afritunar
Nánari upplýsingar á námskrá.is