þjálfun
Einingafjöldi: 5
Þrep: 2
Forkröfur: engar
Áfanginn er bóklegur, fræðilegur og verklegur. Nemendur skulu þjálfast í grundvallaraðferðum sem notaðar eru við kennslu og þjálfun barna og unglinga í íþróttum og tómstundum. Nemendur fái sem bestan undirbúning fyrir störf leiðbeinenda þar sem unnið er með yngstu iðkendurna, - bæði fræðilegan og verklegan. Nemendur læra um hlutverk þjálfara og leiðbeinanda í íþróttastarfi, þar sem sértök áhersla er lögð á aldurinn þriggja til tólf ára. Lögð er áhersla á skipulag þjálfunar, áætlanagerð og markmiðssetningu. Meðal efnis er þolþjálfun, styrktarþjálfun, tækniþjálfun og liðleikaþjálfun. Nemendur læri um vöxt barna, hreyfiþroska, næringu, félagsþroska og sálrænan þroska. Farið verður í stefnu íþróttahreyfingarinnar hvað varðar þjálfun barna og unglinga auk annars sem snýr að mikilvægu hlutverki leiðbeinandans í því samhengi.Sérstök áhersla er lögð á mikilvægi leikrænnar kennslu í þjálfun barna og unglinga, auk þess sem nemendum er leiðbeint með framsögn og árangursríkar aðferðir til að ná til barna í íþrótta- og tómstundastarfi. Fjallað er um þjálfarann sem fyrirmynd - mikilvægi fyrirmyndar hlutverksins og nauðsyn þess að þjálfarinn ræki það af kostgæfni. Fjallað verður um skaðsemi áfengis, tóbaks og annarra vímuefna á líkamann og neikvæð áhrif slíkra efna á afreks- og afkastagetu íþróttaiðkenda sem og annarra. Nemendum er bent á hvernig hægt er að koma ákveðnum siðfræðiboðskap að í gegn um íþrótta- og tómstundastarf, t.d. gildi þess að hafa rétt við í keppni og að allir fái að vera með á sínum eigin forsendum. Áfanginn fæst metinn inn í þjálfarakerfi ÍSÍ sem almennur hluti 1a, 1b, og 1c.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- hlutverki þjálfarans
- skipulagi og áætlanagerð í þjálfun
- muninum á þjálfun barna og unglinga
- hreyfiþroska, sálrænum þroska og félaglegum þroska barna
- • mikilvægi hollrar næringar samhliða íþróttaiðkun og í daglegu lífi
- mikilvægi þess að þjálfarinn sé fyrirmynd
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- skipuleggja þjálfun til lengri og skemmri tíma
- standa fyrir framan hóp og útskýra æfingar
- ná athygli nemenda í kennslu
- notfæra sér upplýsingatækni við þjálfun og undirbúning þjálfunar
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- miðla þekkingu sinni til iðkenda við grunnþjálfun barna og unglinga
- skipuleggja grunnþjálfun miðað við mismunandi aðstæður og mismunandi getustig iðkenda
- breyta æfingum svo þær hæfi mismunandi aldursstigum
Nánari upplýsingar á námskrá.is