Friðrik, Eva, Anna Karen og Þórgunnur í Prag
Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra tekur þátt í Erasmus+ verkefninu „International ICT Competitions III for Increasing the Quality of Secondary Education“ sem fór af stað í haust. Verkefnið, sem er yfirleitt kallað ICT III, er nemendaverkefni þar sem áhersla er á tæknihlið náms og unnið rafrænt að gerð efnis til að auka gæði náms. Aðrir þátttakendur í verkefninu eru skólar í Tékklandi, Póllandi og á Spáni. Fyrr í haust voru valdir 4 nemendur til að fara til Tékklands og Póllands vegna verkefnisins en því miður veiktist einn þeirra rétt fyrir brottför og komst ekki með. Nemendurnir sem fóru voru Anna Karen Hjartardóttir, Friðrik Alvin Haraldsson Grankvist og Þórgunnur Þórarinsdóttir og fararstjórar voru Eva Jóhanna Óskarsdóttir og Grétar Karlsson.
Eins og nafnið á verkefninu gefur til kynna þá snýst það að hluta til um keppnir í upplýsingatækni. Annars vegar fara fram keppnir innan skólanna sem eru eitt af því sem horft til við val á nemendum í ferðalögin og hins vegar alþjóðlegar keppnir sem fara fram meðan á heimsóknum stendur. Í þessari ferð voru nemendur dregnir saman í pör af ólíkum þjóðernum fyrir keppnina. Pörin voru dregin saman á þriðjudagsmorguninn og unnu svo saman í vinnustofum á þriðjudeginum til að undirbúa sig fyrir keppnina. Keppnin sjálf fór svo fram á miðvikudeginum og voru veitt verðlaun fyrir þrjú efstu sætin. Okkar nemendur stóðu sig öll vel en pörin sem lentu í verðlaunasætum voru:
- Friðrik Alvin Haraldsson Grankvist og Piotr Tylka frá Póllandi
- Alexandre Herrero Francés frá Spáni og Filip Chýlek frá Tékklandi
- Þórgunnur Þórarinsdóttir og Raquel Alfaro Colomer frá Spáni
Auk vinnustofanna og keppninnar skiplögðu gestgjafarnir skoðunarferðir fyrir okkur.
Í Prag heimsóttum við höfuðstöðvar Microsoft í Tékklandi og fórum í skoðunarferð um borgina. Í nágrenni við Nový Jičín fórum við í Pustevny skywalk og skoðuðum sögulega bæinn Štramberk. Á leiðinni til Póllands skoðuðum við Landek námuna/safnið. Í Póllandi fórum við í ferð til Zakopane sem er kölluð vetrarhöfuðborg Póllands og fengum skoðunarferð um Kraków.
Meðan á verkefninu stóð gistu nemendur hjá fjölskyldum í Tékklandi og Póllandi og fengu þannig að kynnast þeirra menningu í návígi.
Við þökkum gestgjöfunum kærlega fyrir móttökurnar.
Næsta ferð í verkefninu verður til Spánar í mars og svo heimsækja samstarfsskólarnir okkur haustið 2023.