FNV leggur áherslu á að nemendur séu vel undirbúnir undir verkefni í lífi og starfi að námi loknu. Því er alltaf gaman að heyra þegar nemendum frá skólanum vegnar vel. Nýverið fékk Ingvi Hrannar Ómarsson inngöngu í einn virtasta skóla Bandaríkjanna, Stanford. Einungis 4% nemenda sem sækja um nám komast að og því var forvitnilegt að heyra meira frá Ingva Hrannari.


Ingvi Hrannar er 32 ára og gekk í Árskóla á Sauðárkróki. Að grunnskóla loknum fór hann í FNV og valdi viðskipta- og hagfræðibraut. Hann ákvað strax að vera samviskusamur og mætti alltaf í tíma. Þannig nýttist tíminn í skólanum vel og tími gafst til að sinna öðrum áhugamálum og vinnu eftir skóla. Ingvi Hrannar hefur verið í fótbolta lengi og þar lærðist það að maður mætir á æfingu, jafnvel þó maður sé meiddur og þurfi að horfa á. Hann mælir ekki með því við nemendur að venja sig á að sofa lengur og sleppa fyrstu tímunum á morgnana. Það var ekki markmið að fá 10 í framhaldsskóla en hann hafði gagn og gaman af náminu og reyndi að fá í kringum 8 og það gekk vel með jafnri ástundun. Ingvi Hrannar velti ekki upp möguleikanum um aðra framhaldsskóla. Hann hafði augastað á að komast sem skiptinemi til Bandaríkjanna og því var tilvalið að vera á Króknum og nýta tímann utan skóla t.d. með því að vinna og safna fyrir skiptinemadvöl. Hér voru líka vinirnir og fótboltinn. Skólinn stóð undir væntingum og hann var heilt yfir mjög sáttur með skólann. Námið og kennslan var góð en þar var ekki síður mikilvægur skóli að taka þátt í öflugu félagslífi, vera þátttakandi í skipulagningu á viðburðum og sitja í ráðum og nefndum. Útskrifarferðin og að vinna í sjoppunni er ekki síður nám en hin eiginlega kennsla.


Eftir útskrift við FNV fór Ingvi Hrannar til Danmerkur í Lýðháskóla en það var öðruvísi upplifun en íslenski skólinn. Enn meiri áhersla var lögð á félagslífið en námið sjálft í bland við íþróttir og listir. Ingvi Hrannar hafði mikinn áhuga listum og reyndi að komast að í Listaháskólanum en þar er gerð krafa um að nemendur hafi góðan bakgrunn í listum og því komst hann ekki inn. Þá lá beint við að fara í Kennaraháskólann, hann hafði þjálfað börn í íþróttum, unnið í leikskóla og félagsmiðstöð og þekkti því vel að starfa með börnum.


Að námi loknu togaði Skagafjörður í hann aftur og var það var ekki síður vinirnir og fótboltinn. Hann byrjaði að kenna börnum í 1. bekk og fygldi þeim áfram í 2. og 3. bekk. Strax við upphaf kennslu hugsaði hann að það hlyti að vera betri leið fyrir nemendur til að ná tökum á námsefninu en bara bækur og að skila endalausu rituðu efni til kennara. Snjalltæki og tölvur eru mikið notuð af börnunum utan skólatíma og hví ekki að nýta þau líka í kennslu hugsaði Ingvi Hrannar. Árið 2012 var sótt um styrk til að kaupa iPada í skólann og notkun á þeim hófst í kennslunni.
Ingvi Hrannar hélt svo til Lundar í Svíþjóð og útskrifaðist með gráðu í frumkvöðlafræðum en kom aftur til að sinna menntamálum í Skagafirði og þá bæði sem kennari og kennsluráðgjafi en orðspor hans um góða nýtingu á tækni í kennslu hefur farið víða.


Aðspurður um áherslu í menntamálum og tækni segir Ingvi iPad eða tölvu vera mörg verkfæri í einu tæki. Það auki á fjölbreytni að nýta tæknina og það nær til nemenda. Með tölvutækni getur nemandinn sýnt færni sína og leikni og tæknin getur einnig hjálpað þeim nemendum sem standa höllum fæti. Tæknin er tilvalin til að jafna stöðu þeirra sem þurfa aðstoð. Sumir þurfa stærra letur, aðrir þurfa hjálp við lestur á texta og þetta leysir tæknin á auðveldan hátt. Sá kennsluháttur sem hefur tíðkast í áratugi að nemendur lesi ákveðinn texta og skili að því loknu ritun er að breytast. Utan skóla eru nemendur að sækja upplýsingar og vinna með þær, nú er skólinn að nýta það líka. Ef nemandi skilar til kennara hefðbundnu ritverkefni þá er erfitt að bæta það og breyta eftir á og kennarinn einn sér afraksturinn en ef ólíkir miðlar eru notaðir getur efnið vera meira lifandi og fleiri fá að njóta afrakstursins. Nemandi getur nýtt þessi tæki til að setja texta í blogg, búa til hlaðvarp, gera myndbönd og jafnvel semja tónlist. Tæknin er verkfæri til sköpunar en tæknin ein og sér leysir ekki verkefnið heldur er þetta undir nemandanum komið. Því betur sem nemandinn kann á verkfærið, því betur leysir hann verkefnið.


Þó að tæknin gefi okkur ótal möguleika þá er líka mikilvægt að læra hvenær á að stoppa og leggja þessi tæki frá sér. Auðvitað getur tækjanotkun verið of mikil en það eru líka aðrir hlutir í kringum okkur sem getur verið of mikið af. Það þarf að vera jafnvægi í þessu eins og öðru. Heima eru börnin oft að nýta tækin í óvirkan skjátíma, þar sem þau eru að kaupa sér frið frá öðru áreiti, en í skólanum er skjátíminn virkur og þar er sköpun höfð að leiðarljósi. Það er mikilvægt að rugla þessu ekki saman. Auðvitað er það uppeldisatriði að börn fái nægan svefn, hreyfingu og eigi í góðum samskiptum við aðra en þau þurfa að líka að læra að tæknin getur hjálpað við margs konar sköpun t.d. eru iPadar notaðir við myndmenntakennslu í Árskóla.


Í haust bíða Ingva Hrannari nýjar áskoranir er hann stígur á skólabekk í Stanford. Að vera einn fárra umsækjenda sem fékk inni er mikill heiður en umsóknarferlið var nokkuð strangt og þurfti m.a. að fara í próf í stærðfræði og ensku. Ingvi hefur verið virkur í skólamálum, gefið út podcost, haldið námskeið, flutt fyrirlestra á ráðstefnum og það hefur eflaust hjálpað honum í inntökuferlinu. Í náminu blandast saman kennslufræði, tækni og hönnun en það það þrennt er Ingva Hrannari hugleikið. Stefnan er svo að útskrifast með M.A. gráðu frá Stanford og sjá svo til hvað gerist í framhaldinu. Það er margt sem getur gerst á einu ári þannig að það kemur í ljós framtíðin ber í skauti sér.