Gettu betur lið FNV. Frá vinstri: Markús Máni Gröndal, Steinunn Daníela Jóhannesdóttir og Arna Ísabella Jóhannesdóttir
Eins og undanfarin haustmisseri hafa nemendur undirbúið sig fyrir Gettu betur keppni vorannar. Sex nemendur hóf nám í Gettu betur áfanga í byrjun september og hafa æft af kappi tvisvar í viku alla önnina. Nemendur kusu síðan í lok nóvember þrjá þátttakendur áfangans sem munu keppa fyrir hönd Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra í sjálfri Gettu betur keppninni. Lið FNV árið 2025 skipa þau Arna Ísabella Jóhannesdóttir, Markús Máni Gröndal og Steinunn Daníela Jóhannesdóttir. Einnig hafa þeir Anton Einar Mikaelsson, Daníel Smári Sveinsson og Tómas Bjarki Guðmundsson tekið þátt í æfingum haustsins og munu gera áfram.
Liður í undirbúningnum var heimsókn keppnisliðs Menntaskólans á Akureyri. Komu Eyfirðingar með tvö lið og kepptu við aðal- og varalið FNV. Nemendafélag FNV bauð upp á pizzur fyrir keppendur og áhorfendur sem fylltu sal skólans og úr varð hin besta skemmtun. Fóru MA með sigur af hólmi í viðureignunum, en voru þær hins vegar vel heppnaðar og góður undirbúningur. FNV mætir Menntaskólanum á Egilsstöðum í fyrstu umferð Gettu betur þann 9. janúar.