Frá vinstri: Þorkell skólameistari, Unnur Valborg framkvæmdastjóri SSNV og Anna Hlín verkefnisstjóri
Skólinn mætir þörfum atvinnulífsins í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Sóknaráætlun landshluta.
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra (FNV) hafa gert með sér samning um stuðning SSNV við þróun nýrrar matvælabrautar við fjölbrautaskólann. Verkefnið er áhersluverkefni sóknaráætlunar fyrir árið 2018.
Á síðustu árum hefur Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra lagt kapp á að bregðast við þörfum atvinnulífsins fyrir menntað starfsfólk. Skólinn stóð fyrir gerð námsbrautar fyrir slátrara og farið var af stað með kennslu á þeirri braut vorið 2016. Þá hefur skólinn boðið upp á nám í fisktækni um nokkurra ára skeið.
Komið hafa fram óskir um nám fyrir fólk sem starfar við mjólkuriðnað. Hugmyndin með námsbrautinni er að þar geti starfsmenn fyrirtækja í mjólkuriðnaði fengið kennslu í raun- og tæknigreinum sem nýtist í þeirra störfum
Allt nám á matvælasviði inniheldur ákveðinn sameiginlegarn grunn og því mun skólinn þróa grunnnám fyrir framangreindar greinar og síðan framhaldsnám fyrir fólk í mjólkuriðnaði. Fyrirtæki í mjólkuriðnaði hafa lýst yfir vilja til að koma að samvinnu um gerð námsbrautar á þessu sviði.
Anna Hlín Jónsdóttir hefur verið ráðin verkefnisstjóri verkefnisins hjá FNV. Hennar hlutverk verður að halda utan um og stýra samstarfi fagaðila sem að náminu koma. Jafnframt mun hún vinna skipulag námsbrautarinnar og ritun brautar- og áfangalýsinga í námskrárgrunn.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri SSNV segir starf FNV ákaflega mikilvægt fyrir Norðurland vestra í heild og mikilvægt að þar verði áfram rými til þróunar námsbrauta sem henta atvinnulífinu hverju sinni. "Það er ánægjulegt að geta með þessum hætti stutt við áframhaldandi nýsköpun innan skólans um leið og stuðlað er að eflingu atvinnulífsins á svæðinu" segir Unnur jafnframt.
Nánari upplýsingar veita:
Þorkell V. Þorsteinsson, starfandi skólameistari FNV, s. 455-8000
Anna Hlín Jónsdóttir, verkefnisstjóri, s. 847-5679
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV, s. 862-1340