Thelma Rán
Í FNV er metnaðarfull og fjölbreytt kennsla í iðngreinum. Iðnnám er góð undirstaða undir annað nám en opnar einnig dyr fyrir fjölbreyttum atvinnumöguleikum eitt og sér. Strákar hafa verið duglegir að sækja í verknámið en stelpur eru enn í miklum minnihluta. Thelma Rán Brynjarsdóttir er þó ein fárra stelpna sem ákvað að skella sér í iðnnám. Við ákváðum að forvitnast aðeins meira um hana.
Thelma Rán Brynjarsdóttir er 22 ára. Hún ólst að mestum hluta upp í Reykjavík en kom í Skagafjörðinn í sveit sem barn. Pabbi hennar og stjúpmóðir fluttu til Skagafjarðar og því tók hún 10. bekk á Hofsósi og líkaði vel.
Thelma Rán er að læra vélvirkjun og tekur einnig vélstjórnarréttindi B en það gefur m.a. réttindi til að gegna stöðu vélstjóra á skipum með vélarafl allt að 1500 kw en þó stefnir hún ekki á sjóinn. Þessi menntun gefur Thelmu fjölbreytta möguleika á atvinnu, t.d. er hægt að vinna á vélaverkstæði, slipp eða sinna almennri málmsmíði. Síðasta sumar vann hún í Blönduvirkjun og ætlar þangað aftur í sumar og þá tekur hún hluta tímans sem hún þarf að vera á samning til að uppfylla kröfur til sveinsprófs. Hún segir að það sé áhugaverð vinna og gott tækifæri að fá að spreyta sig þar.
Þegar Thelma valdi nám að grunnskóla loknum fannst henni mikilvægt að velja nám sem væri hagnýtt ásamt því að ljúka stúdentsprófi. Verknám nýtist vel þeim sem ætla að búa í sveit en þangað stefnir hugurinn. Thelma sér fram á að málmsmíði og vélvirkjun sé þekking sem komi henni að góðum notum í sveitastörfum framtíðarinnar. Pabbi hennar og stjúpmóðir búa í Miðhúsum í Blönduhlíð þar sem hún hefur kynnst sveitastörfum en sjálf býr hún núna í Valagerði með kærasta sínum. Í Valagerði eru hross og hún nýtur þess að nýta frítímann í að ríða út.
Aðspurð út í námið segir Thelma að það sé mjög fjölbreytt, bæði verklegir tímar og bóklegt. Í verklegum tímum hafi þau til að mynda lært að búa til grill, hamar og lóð. Einnig er plötuvinnan skemmtileg og að sjóða. Í bóklegu tímunum læra þau vélstjórn, vökvafræði og ýmislegt er varðar skipsvélar. Þau hafa aðgang að hermi þar sem þau koma upp vél og starta henni, sumt af þessu getur verið flókið en þetta er skemmtilegt nám og kennararnir fínir. Verklegu tímarnir eru þeir skemmtilegustu t.d. plötuvinna og málmsuða, það er gaman að vinna með höndunum og þannig lærir maður mest.
Það hafa ekki verið margar stelpur í verknáminu með Thelmu en það kemur ekki að sök því nemendahópurinn er góður og hún er tekinn inn í hópinn bæði af samnemendum og kennurum. Thelma segir að stelpur þurfa bara að gefa verknáminu séns, maður veit ekki hvað maður vill fyrr en maður prófar. Hún tekur þó fram að maður mætir ekki skólann í hælaskóm og skyrtu.