Takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar

Frétt um takmörkun skólahalds
Frétt um takmörkun skólahalds

Kennsla verður samkvæmt stundarskrá með fjarfundarsniði frá og með þriðjudeginum 17. mars. Kennsla fellur niður mánudaginn 16. mars vegna undirbúnings kennara fyrir breytt fyrirkomulag kennslu.

Eftirfarandi bréf hefur verið sent á nemendur skólans og forráðamenn þeirra:

Kæru nemendur og forráðamenn

Í dag tilkynntu yfirvöld um lokun framhaldsskóla frá og með mánudeginum 16. mars.  Þessi lokun kallar á breyttar aðferðir í skólahaldi með nútíma tölvutækni.  Það vill svo til að kennarar við FNV hafa áralanga reynslu af kennslu í gegnum allskyns fjarfundatækni sem skólinn hyggst nýta  á meðan á lokun framhaldsskóla stendur.

Reglulegt skólahald með fjarfundasniði hefst þriðjudaginn 17. mars kl. 8:00. Nemendur mæta eins og áður í kennslustundir, en að þessu sinni heima hjá sér. Allir nemendur skólans hafa aðgang að Office 365 sem þeir geta hlaðið niður á tölvur sínar eða í snjallsíma.  Í þessu forriti er að finna tölvupóst og samskiptaforrit sem kallast Teams, en það er arftaki Skype sem flestir þekkja.

Kennarar skólans í bóklegum greinum munu mæta eins og áður í kennslustundir samkvæmt stundatöflu, setjast við tölvuna og hefja kennslu í gegnum Teams forritið.  Nemendurnir setjast við sínar tölvur eða snjallsíma heima hjá sér og opna Teams forritið og mæta í viðkomandi kennslustund.  Kennararnir munu styðjast við Moodle og INNU eins og áður.  Eini munurinn er sá að nemandinn situr heima og kennarinn í skólanum.

Merkt verður við skólasókn eins og áður og sömu kröfur gerðar til skólasóknar og verkefnaskila eins og verið hefur. Meðfylgjandi eru leiðbeiningar um uppsetningu Office 365 fyrir þá sem ekki hafa þegar sett það upp í tölvu sína eða snjallsíma. Þá fylgja í öðrum pósti leiðbeiningar um notkun Teams en hér er að finna stutta kynningu á Teams:  https://www.origo.is/um-origo/blogg/hvernig-bokum-vid-fundi-i-teams/

Ljóst má vera að ekki er hægt að kenna verklega áfanga í gegnum Teams.  Þess vegna hefur verið ákveðið að fjölga kennslustunum í bóklegum faggreinum á kostnað verklegu kennslustundanna þann tíma sem lokun varir.  Með þessu móti verður hægt að ljúka bóklegu áföngunum fyrr en annars hefði verið og nýta síðan bóklegu kennslustundirnar fyrir verklegar kennslustundir þegar skólinn opnar á ný.

Eins og fyrr segir hefst kennsla með fjarfundasniði þriðjudaginn 17. mars, en kennarar munu nota mánudaginn til að undirbúa kennslu með breyttu fyrirkomulagi. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag kennslu verða sendar nemendum mánudaginn 16. mars og kennarar munu upplýsa nemendur sína um fyrirkomulag kennslu í einstökum áföngum í næstu viku.

Með ósk um góða helgi

Stjórnendur