Útivistarhópur haust 2021
Nú á líðandi haustönn hefur útivist verið í boði sem valáfangi fyrir nemendur FNV eins og jafnan áður.
Skráning í áfangann var mjög góð og þrátt hríðarskot og kulda í lok september þá hefur nú tekist að ljúka öllum áætluðum ferðum undir styrkri stjórn og handleiðslu kennara hópsins, þeirra Önnu Hlínar og Ingvars Magg.
Alls voru fimm ferðir farnar - gönguferðir, hjólaferð, hestaferð og flúðasiglingar.
Það er nýmæli í áfanganum að bjóða nemendum hópsins á hestbak og mæltist það vel fyrir – reyndar treystu sér ekki allir til að leggja á „þarfasta þjóninn“ en völdu heldur að leggja á sína hjólhesta eða hesta postulanna.
Lokaferð hópsins var á Blönduós þar sem náttúruperla þeirra Blönduósinga, Hrúteyjan var heimsótt og skoðuð í haustlitunum. Þar naut hópurinn góðrar leiðsagnar tveggja staðkunnugra heimamanna í hópnum, þeirra Sigurðar Péturs og Víkings Leós.
Að göngu lokinni var hópnum boðið upp á slökun og kaffi í hinnni glæsilegu Blönduóslaug.
Þegar þetta er ritað sitja væntanlega flestir nemendur hópsins við skriftir og skrifa skýrslu um ferðirnar allar - er það lokaverkefni áfangans og þarf að skila því til kennara.