Útivistarhópurinn á Mælifellshnjúk
Föstudaginn 1.sept fór útvistarhópurinn í sína fyrstu ferð á önninni. Áfangastaðurinn var hæsta fjallið í vestur fjallgarði Skagafjarðar. Sjálfur Mælifellshnjúkurinn sem gnæfir 1138m yfir sjávarmáli.
Veður til fjallaferðar var mjög gott. Hægur sunnan vindur, hálfskýjað og fjallasýn góð. Allir nemendur voru mættir við heimavistina kl. 13:15 þar sem raðað var í bíla og línur lagðar. Frá Króknum er um hálf tíma akstur fram í Mælifellsdal að uppgöngunni á Hnjúkinn. Hluti þessarar leiðar er notuð í Skagafjarðarrallinu, því þurfti að leggja áherslu á að verið væri að fara í fjallgöngu en ekki rallý. Þrátt fyrir að við héldum hópinn á frameftir leiðinni missti einn bílstjóriinn af afleggjaranum upp í Mælifellsdal enda er hann merktur Efri-Byggð??
Allir skiluðu sér frameftir að lokum og lagt var af stað á fjallið 13:45. 22 nemendur og tveir fararstjórar. Leiðin á Mælifellshnjúk er vel merkt, stikur með 20-30m bili, alla leið á toppinn. Auk þess er uppgangan orðin býsna troðin og þægileg. Eins og gefur að skilja þegar svona stór hópur fer á fjall þá eru menn mis undirbúnir til ferðar. Bæði hvað varðar líkamlegt ástand og einnig er útbúnaðurinn ekki alltaf eins og best væri á kosið. Þar eru það skórnir sem skipta höfuð máli, annaðhvort góðir gönguskór eða utanvega hlaupaskór æskilegir á fótum þátttakenda.
Upp var haldið og miðaði vel. Fyrst er nokkuð brattur kafli, síðan tekur við ágætis ferjuleið áður en hin raunverulega fjallganga hefst. Segja má að ferðin hafi gengið mjög vel, þrátt fyrir að það hafi verið bálhvasst á kambinum í suðurhlíðum Hnjúksins. Vel tókst að halda hópnum saman þannig að hann dreifðist ekki of mikið. Árni gékk á undan og hélt aftur af þeim hröðustu og Heddý rak á eftir þeim síðustu. Eftir tæpa tvo tíma stóðu allir á toppnum, nutu útsýnisins, snæddu nestið sitt og tóku að sjálfsögðu myndir til að staðfesta afrekið.
Eftir stuttan stans á toppi tilverunnar var haldið niður og sóttist sú ferð mjög vel. Nú fengu menn að fara á eigin hraða og hlupu sumir við fót alla leið niður í bíl. Allir komu heilir niður, þreyttir en sáttir með ævintýri dagsins. Góður dagur að baki og strax farið að huga að næstu ferð sem einnig verður heimsókn í Lýtingsstaðahrepp, þ.e. Rafting í vestari Jökulsá. Meira um það síðar.
Árni Stefánsson íþróttakennari