Auglýsing fyrir valáfanga
Meðal valáfanga í boði á vorönn 2023 eru:
ENSK3DY05 Enska, yndislestur
Nemendi les 5 skáldsögur og/eða bækur sem valdar eru í samráði við kennara. Námsmatið verður munnleg skil eftir lestur hverrar bókar.
FÉLV3MR05 Mannréttindi - saga og samfélag
Þverfaglegur áfangi þar sem Guðbjörg og Gústi leiða ykkur í átt að sannleikanum um sögu, þróun og áhrif mannréttinda og baráttuna fyrir þeim á einstaklinginn og samfélagið.
- Af hverju er stríð í Úkraínu?
- Af hverju er barátta hinsegin fólks endalaus?
- Af hverju fór netið á hliðina af því Ariel er hörundsdökk?
- Af hverju geta konur ekki farið í þungunarrof alls staðar í Bandaríkjunum?
- Af hverju fengu konur í Sviss ekki kosningarétt fyrr en 1971?
Þessum spurningum og mörgum fleirum fáið þið svör við í áfanganum!
RAFL1VA03 Raflagnir fyrir áhugafólk - kynningaráfangi
Nemendur kynnast starfi og starfssviði rafiðnaðarmannsins. Þeir læra um eðlisfræðilega hegðun rafmagns, meðal annars með litlum verkefnum. Þeir fræðast um ólíkar gerðir rofa, tengingu þeirra og notkun, ólíkar gerðir víra og meðhöndlun þeirra með tilliti til aðstæðna. Nemendur læra að tengja klær og hulsur, æfa áfellda kapallögn og tengingu rofa, tengla og ljósa, og kynnast nokkrum raflagnatáknum. Þeir læra að afeinangra víra og kapla, tengja klær fyrir sterkstraum. Nemendur eru þjálfaðir í notkun handverkfæra sem notuð eru í rafiðnaði og kynnast algengustu efnum í rafiðnaði. Nemendur læra einnig um öryggismál og reglugerðir er varða rafmagn. Nenemdur læra um eðliðfræði lóðninga og lóða einfaldar æfingar.
SPÆN2DD05 Spænska 4
Nemendur eru þjálfaðir í hlustun, lestri, tali og ritun. Áhersla er lögð á notkun tungumálsins, bæði munnlega og skriflega, í raunaðstæðum sem mætir hæfniviðmiðum þrepsins. Unnið er með efni af ýmsu tagi og á mismunandi þyngdarstigi, s.s. texta og hlustunar- og myndefni. Ýmis þemaverkefni eru unnin út frá raunefni sem tengjast listum, sögu, menningu og þjóðfélagi samtímans á viðkomandi málsvæðum.
ÞÝSK2BE05 Berlínaráfangi
Berlín er hér til umfjöllunar. Saga borgarinnar er tekin fyrir, sjónum er beint að tímabilinu frá 1945 til dagsins í dag. Tekin eru fyrir dagleg samskipti á þýsku og nemendur vinna með ýmsar heimildir á þýsku og íslensku. Undirbúningur ferðar til Berlínar, verkefni í tengslum við ferðina. Þekktustu staðir borgarinnar eru heimsóttir undir leiðsögn kennara eða fararstjóra. Samþætting tveggja námsgreina, þýsku og sögu. Nemendur greiða allan kostnað við ferðina.
Nemendur geta valið áfanga af öðrum brautum til að setja í frjálst val.
Val í dagskóla og helgarnámi fyrir vorönn 2023 fer fram dagana 5. til 12. október í INNU.