Evrópuverkefnið Networkline Europe 4.0 - Everyone Everywhere at Anytime
Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra og Fab Lab Sauðárkrókur eru í samstarfi við fimm aðra framhaldsskóla í Evrópu í verkefni sem kallast ERASMUS + Networkline Europe 4.0 - Everyone Everywhere at Anytime. Auk Íslands taka Noregur, Belgía, Þýskaland, Tékkland og Ungverjaland þátt í þessu verkefni.
Verkefnið er til tveggja ára og miðar að því að búa til framleiðslulínu í anda fjórðu iðnbyltingarinnar þar sem möguleikar á sérhæfðum framleiðsluháttum með lítilli fyrirhöfn eru hafðir að leiðarljósi. Þessir möguleikar eiga jafnvel eftir að breyta neyslumynstri, framleiðsluferli og tækni. Þetta er því frábært tækifæri fyrir nemendur skólans.
Framlag Íslands í þessu verkefni er að útbúa tækniarm sem getur tekið upp litlar flögur og komið þeim fyrir í magasíni í annarri hæð. Dagana 25. -30. september fór hópur kennara og nemenda til Steinfurt í Þýskalandi þar sem hafist var handa við þetta spennandi verkefni. Tækjabúnaður HAAS rýmis skólans sem og Fab Lab stofunnar munu koma sér vel í þeirri vinnu sem framundan er.