FNV hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

Jafnvægisvogin 2024
Jafnvægisvogin 2024

Þorkell. V. Þorsteinsson, settur skólameistari, tók á móti viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar fyrir hönd FNV, á árlegri viðurkenningarathöfn sem haldin var 3. október.

Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) sem hefur að markmiði að auka jafnvægi milli kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi. Að þessu sinni hlutu 93 fyrirtæki, 15 sveitarfélög og 22 opinberir aðilar viðurkenninguna, eða samtals 130 sem er metfjöldi. Alls hafa 247 þátttakendur skrifað undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar. Kynjahlutfall meðal allra stjórnenda FNV er kk/kvk: 43/57.

Dr. Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Háskóla Íslands og formaður Jafnvægisvogarinnar, bauð gesti velkomna á viðurkenningarhátíðina og hrósaði stjórnendum fyrir eftirtektarverðan árangur í jafnréttismálum. Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisræðherra, flutti ávarp og fór yfir stöðuna í jafnréttismálum í samfélaginu almennt.

Að hreyfiaflsverkefninu standa auk FKA, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, PiparTBWA, Ríkisútvarpið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá.

Gróðursetja 130 tré

Jafnréttislundur FKA í Heiðmörk var kynntur til leiks á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar 2020, en lundurinn var fenginn hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Síðan þá hafa verið gróðursett tré í lundinum að lokinni hverri ráðstefnu, eitt fyrir hvern viðurkenningarhafa. Í ár verða því gróðursett 130 tré, en samtals verða þá 392 tré í Jafnréttislundinum.

Mælaborð Jafnvægisvogarinnar

Mælaborð Jafnvægisvogarinnar heldur utan um tölfræðilegar upplýsingar um jafnrétti. Í mælaborðinu koma fram helstu upplýsingar um stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi. Þar má einnig finna kynjahlutföll við brautskráningar úr háskólum, stöðu kynjanna innan atvinnugreina og GemmuQ kynjakvarðann fyrir skráð félög á markaði. Mælaborðið má skoða hér: www.fka.is/verkefni/jafnvaegisvogin/maelabord

Allar helstu upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu verkefnisins: www.fka.is/verkefni/jafnvaegisvogin