Íslandsmeistari iðnnema í málmsuðu

Jón Gylfi Jónsson lauk nýverið keppni í Íslandsmeistaramóti iðnnema.  Hann er í námi við FNV í vélvirkjun og vélstjórn.  Jón Gylfi er frá Bessastöðum í Sæmundarhlíð og gekk í Varmahlíðarskóla sem barn.  Það lá beint við að fara í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, það var stutt að fara og skólafélagar og vinir fóru flestir þangað.  Á Bessastöðum eru um 300 kindur og hefur Jón Gylfi verið virkur við að hjálpa til við sveitarstörfin t.d. rúningu og fleira. 

MálmsuðaÍ vélvirkjun og vélstjórn hefur hann lært að sjóða og smíða úr málmi, t.d. smíða hamar og verkfærakistu.  Jón Gylfi klárar vélvirkjun núna í vor og ætlar að halda áfram í vélstjórn.  Undanfarin tvö sumur hefur hann unnið á vélaverkstæði enda gott að samþætta nám og vinnu með þeim hætti.  Eftir námið í vélstjórn hefur hann réttindi sem vélstjóri á minni báta en fjölbreyttir aðrir atvinnumöguleikar bíða að námi loknu.

Á Íslandsmeistarameistaramóti iðnnema í byrjun mánaðarins vann Jón Gylfi málmsuðuna.  Hann segir að það hafi verið skemmtileg reynsla.  „Geir (Eyjólfsson) valdi keppendur fyrir hönd skólans og það var gaman að vera valin“.  Jón Gylfi hafði þó reynslu af því að taka þátt í svona keppni en hann keppti líka fyrir tveimur árum.  Mánuð fyrir keppni var gefið upp hvernig stykki ætti að smíða í keppninni og við tóku æfingar.  Gripurinn var smíðaður nokkrum sinnum og þannig þjálfaðist ferlið og gallar voru lagaðir. 

 

Með smá keppnisskap og góðan undirbúning farteskinu var lagt af stað og það skilaði Jóni Gylfa 1. sæti. Hann er ánægður með skólann og kennsluna og segir félagslífið fínt og reynir að taka þátt í þeim viðburðum sem nemendafélagið býður uppá.  Næsta haust stefnir hann á Bændaskólann á Hvanneyri en Jón Gylfi segir námið hér vélvirkjun og vélstjórn munir nýtast sér vel í framtíðinni bæði í námi og starfi.