Á tökustað
Nemendur á kvikmyndabraut voru í tökum á stuttmynd þegar fréttamaður leit til þeirra. Þennan daginn fóru fram tökur á stuttmyndinni Loforðið eftir Óla Austfjörð. Tökur fóru meðal annars fram á í heimahúsi starfsmanna FNV og kennarar fengu hlutverk í myndinni. Myndin er ein af fjórum stuttmyndum nemenda á öðru ári. Nemendur unnu handrit á haustönn en á vorönn eru tökur og klipping. Ein mynd er tekin fyrir í einu og sinna nemendur lykilhlutverkum hvert hjá öðru t.d. sem hljóðmenn eða leikarar. Stefnt er að því að valdar myndir verði sýndar á Sæluviku.
Kvikmyndabrautin er 120 feiningar og lýkur með framhaldsskólaprófi á öðru hæfniþrepi. Nemendur hafa möguleika á að bæta við sig námi eftir eða samhliða brautinni og ljúka stúdentsprófi. Meginmarkmið kvikmyndabrautarinnar eru annars vegar að búa nemendur undir störf aðstoðarmanna í kvikmyndagerð og hins vegar að búa nemendur undir frekara nám í kvikmyndagerð og skyldum greinum. Á brautinni er lögð áhersla á fjölbreytni í kvikmyndagreinum s.s. kvikmyndarýni, handritsgerð, sviðshönnun og lýsingu, kvikmyndatöku,klippingu, hljóðvinnslu og hljóðsetningu. Einnig er lögð áhersla á samvinnu við atvinnulífið, einkum við starfandi framleiðslufyrirtæki í kvikmyndagerð.
Árni Gunnarsson er kennari í kvikmyndagerð. Hann rekur einnig kvikmyndafyrirtækið Skotta Film sem staðsett er á Sauðárkróki. Skotta hefur framleitt fjölda kvikmynda en einnig kynningarefni og auglýsingar fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki. Nemendur hafa fengið að taka þátt í verkefnum Skottu og öðlast með því dýrmæta reynslu. Kvikmyndabrautin er því dæmi um vel heppnað samstarf skóla og atvinnulífs. Fleiri kennarar en Árni hafa komið að kennslu á brautinni. Mylen Blanc aðstoðaði við kennslu í hljóðtækni og –vinnslu á vorönn. Mylen er hljóðmaður og kemur frá kvikmyndaskóla í Frakklandi. Hún hefur áður aðstoðað við kennslu á brautinni.
Árni Gunnarsson lærði kvikmyndagerð í Danmörku og hefur áralanga reynslu af kvikmyndagerð, en Skotta kvikmyndafjelag var stofnað árið 2004. Árni hefur gert yfir 30 heimildarmyndir og þætti fyrir sjónvarp, bæði hér heima og erlendis. Hann lauk nýverið B.A. prófi í sagnfræði. Í framtíðinni hefur hann áhuga á að vinna sagnfræðileg verkefni á sviði kvikmyndagerðar. Áhugamál Árna eru margvísleg svo sem útivist og tónlist. Hann samdi rokksöngleik sem sýndur var í reiðhöllinni og á menningarnótt árið 2005. Nú er von á fleiri lögum frá Árna, en þessa dagana vinnur hann að útgáfu kántrýrokks þar sem hann semur bæði lög og texta.