Auglýsing um námskeið í trefjaplastsmíði
Lýsing:
Fjölbrautaskóli Norðurlands býður upp á námskeið í trefjaplastsmíði á vorönn 2023 í samvinnu við Iðuna, Samtök iðnaðarins og Samgöngustofu. Markmið námskeiðsins er að þátttakendur geti að námskeiði loknu unnið sjálfstætt að smíði og viðgerðum á skipum eða öðrum mannvirkjum sem smíðuð eru úr trefjaplasti. Þeir sem hafa lokið slíku námskeiði, hafa sótt nám í grunnteikningu og sem geta lagt fram staðfestingu um fullnægjandi starfstíma við trefjaplastsmíði eiga rétt á að fá viðurkenningu Samgöngustofu sem plastbátasmiður.
Umfang námsins svarar til 184 kennslustunda undir leiðsögn kennara. Þessu til viðbótar kemur heimavinna þátttakenda.
Inntökuskilyrði:
Gerð er krafa um a.m.k. 12 mánaða starfstíma við trefjaplastsmíðar. Lágmarksaldur nemenda er 25 ár. Við val á þátttakendum er m.a. tekið tillit til starfstíma, nám tengt skipasmíði og í öðrum iðngreinum. Fjöldi þátttakenda er takmarkaður við 16 nemendur.
Umsækjendur þurfa að hafa gott vald á íslensku, geta lesið ensku og vera starfandi við plastbátasmíði. Í verklegar kennslustundir þurfa þátttakendur að hafa með sér viðurkenndar persónuhlífar á borð við grímur, hanska, öryggisskó, viðeigandi kolasíur og þess háttar.
Skipulag:
Bóklegi hluti námsins fer fram í um sjö vikna skeið í gegnum fjarfundabúnað á milli kl 17:30 og 21:30 mánudaga, þriðjudaga og fimmtudaga. Þeir sem sækja námið skulu hafa fullnægjandi aðstöðu til þess að sækja kennslu í gegnum fjarfundabúnað.
Verklega námið fer fram í Reykjavik. Kennt er í einni lotu frá laugardegi til föstudags í 8 klst. á dag í 7 daga.
Þegar sótt er um þarf að taka eftirfarandi fram:
- Nafn:
- Kennitala:
- Heimilisfang:
- Símanúmer:
- Netfang:
- Fyrirtæki :
- Fjöldi ára við trefjaplastsmíði:
- Menntun:
Námsmat fer fram í formi símats.
Gerð er krafa um a.m.k. 95% skólasókn og 100% verkefnaskil.