Rannveig Sigrún syngur sigurlagið
Söngkeppni NFNV var haldin á sal skólans föstudaginn 5. febrúar 2021. Keppendur, sem voru 12 talsins, fluttu 10 lög. Keppninni var streymt beint en vegna tæknilegra örðugleika tafðist keppnin um 30 mínútur. Keppnin var afar ánægjuleg og gestir eins margir og sóttvarnareglur leyfa.
Hlutskörpust í fyrsta sæti var Rannveig Sigrún Stefánsdóttir með lagið „Used to be Mine“ eftir Söru Bareilles og mun hún keppa fyrir hönd skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna. Í öðru sæti voru Íris Helga Aradóttir og Óskar Aron Stefánsson með lagið „What are Words“ eftir Chris Medina. Í þriðja sæti var Jóhann Smári Reynisson með lagið „On My Own“ eftir Frances Rufelle.
Þau Eysteinn Guðbrandsson og Herdís Eir Sveinsdóttir voru kynnar á keppninni og stóðu sig með stakri prýði.
Á meðan dómnefndin réð ráðum sínum flutti Ása Svanhildur Ægisdóttir tvö lög og Óskar Aron brá sér í gerfi „Sunnu“ og flutti með tilþrifum lagið „Tvær úr Tungunum“.
Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson sá um að stjórna ljósum og Sigfús Arnar Benediktsson stjórnaði hljóðinu. Árni Gunnarsson og nemendur í kvikmyndagerð í FNV sáu um upptöku og streymi.
Óhætt er að segja að áhorfendur hafi skemmt sér vel á skemmtilegri söngkeppni skólans.