Helgina 3. - 5. janúar  þreyttu 37 nemendur FNV sveinspróf í húsasmíði. Sökum plássleysis komust aðeins 21 þeirra að í verknámshúsi FNV,  15 nemendur tóku prófið í húsnæði VMA og einn fyrir sunnan. Sama próf var lagt fyrir verðandi húsasmíði í fjórum öðrum framhaldsskólum, Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Tækniskólanum og Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Samtals þreyttu um 130 sveinspróf í húsasmíði að þessu sinni en prófað er tvisvar á ári, í janúar og júní.

Prófið skiptist í bóklegan og verklegan hluta. Bóklega prófið var í tvær klukkustundir. Verklegi stóð yfir  föstudag, laugardag og sunnudag.

Að þessu sinni fengu próftakar það verkefni að smíða snúinn stiga, sem svo er kallaður. Vissulega ekki einfalt verkefni og því þurftu próftakar að nýta tímann vel. Verklegi þáttur prófsins samanstóð af málsetningum, samsetningum, áferð og brýnslu.

 Nemendur fengu niðurstöður prófsins og umsagnir prófdómara fimmtudaginn 9. janúar .   Sveinsstykkin voru til sýnis í verknámshúsinu og nemendur fengu stigana afhenta.