Eysteinn Ívar Guðbrandsson
Eysteinn Ívar Guðbrandsson leikstýrir The Rocky Horror Picture Show sem NFNV setur á svið í Bifröst. Frumsýning er 13. febrúar. Því var tilvalið að leggja nokkrar spurningar fyrir kappann.
Hvernig ganga æfingar á Rocky Horror?
Æfingarnar ganga mjög vel og hefur þetta æfingatímabil verið afar skemmtilegt í alla staði. Það er dásamlegt að fylgjast með krökkunum vaxa og dafna sem leik-, söng- og dansarar með hverri æfingunni. Þau sýna miklar framfarir og mikla ástríðu í því sem þau gera og það gerir starfið mitt auðveldara.
Hvernig er að vera í hlutverki leikstjóra samanborið við að leika?
Að vera leikstjóri er ótrúlega skemmtilegt og gefandi. Það veitir mér tækifæri til að nýta visku mína og reynslu til að leiðbeina þeim sem ég er að leikstýra. Sem leikstjóri þarf ég að hugsa um allan hópinn í heild sinni, skipuleggja og sjá til þess að allir þættir sýningarinnar renni saman í heildstæðan flutning. Þegar ég er að leika sjálfur þá þarf ég meira að hugsa um sjálfan mig eins og að læra textann minn, karaktersköpun, hreyfingar og byggja upp tengsl við mótleikara mína og að sjálfsögðu að hlusta á leikstjórann.
Hefur þú sjálfur leikið í Rocky Horror og þá hvaða hlutverk?
Ég hef ekki leikið í Rocky Horror áður. Þegar sýningin var sett upp síðast árið 2016 var ég í 10. bekk. Ef ég fengi að velja væri ég sannarlega til í að fara í hlutverk Frank-N-Furter, þar sem það er einstaklega spennandi og litríkur karakter.
Hvað er skemmtilegast við The Rocky Horror Picture Show?
Að mínu mati er allt við þessa sýningu skemmtilegt. Lögin eru frábær, dansarnir sturlaðir og sagan er mjög áhugaverð og brengluð á sama tíma, sem ég hef einstaklega gaman að.
En helstu áskoranir?
Ein helsta áskorunin í þessu verki er að við erum að vinna með mikla nánd, nekt og mikinn kynþokka sem er ekki sjálfsagður hlutur að gera fyrir framan annað fólk. Ég hef talað mikið um að það krefst mikils hugrekkis að fara á svið og standa fyrir framan fullan sal af fólki svo bætum við hinu ofan á og þá erum við að tala um ennþá meira hugrekki. Að leyfa sér að þora og framkvæma, þessir krakkar eru miklu meira en bara hetjur í mínum augum.
Mikilvægi leiklistar fyrir framhaldsskóla?
Ég tel að leiklist sé afar mikilvæg fyrir framhaldsskóla því hún eflir sjálfstraust, skapandi hugsun og tjáningu. Skólaleikrit veitir nemendum tækifæri til að vinna saman, styrkja félagsfærni sína, þróa með sér framtíðar vinasambönd og dýpri skilning á þeim fjölbreyttu sjónarmiðum sem koma fram í mismunandi leikverkum.
Framtíðin hjá þér?
Jáá þegar stórt er spurt vonandi björt, en ég hugsa að það muni tengjast leiklistinni og tónlistinni. Planið er allavega að fara mennta sig á þessum sviðum hvenær sem það verður, vonandi á næstunni en annars held ég áfram að taka einn dag í einu, því hver dagur býður upp á ný tækifæri að bæta sig og gera eitthvað skemmtilegt.